Viðskipti innlent

Lögmannsstofan Lex vill milljarð vegna innheimtu á kröfu fyrir Seðlabankann

Karen Kjartansdóttir skrifar
Lögmannsstofan Lex hefur nú krafist eins milljarðs króna þóknunar vegna innheimtu á kröfu fyrir Seðlabanka Íslands á hendur Sparisjóðabankanum, samkvæmt upplýsingum fréttastofu, en Lex er lögmannsstofa Seðlabanka Íslands. Sparisjóðabankinn er í slitameðferð en bankinn skuldar Seðlabankanum 180 milljarða vegna svokallaðra endurhverfra viðskipta. Um er að ræða hálft prósent af heildarskuldinni en síðasta fylgiskjalið í kröfu Seðlabankans var einmitt gjaldskrá Lex, þar sem hin háa þóknun var rökstudd. Samkvæmt heimildum mun Sparisjóðabankinn mótmæla þessari kröfu.

Sparisjóðabankinn stundaði svokölluð endurhverf viðskipti við Seðlabanka Íslands, í umræðunni hafa þessi viðskipti einnig gengist undir nafninu ástarbréf. Þau gengu þannig fyrir sig að minni fjármálafyrirtæki fengu lánaða peninga hjá Seðlabanka Íslands gegn veðum í stóru viðskiptabönkunum, fjármagnið frá Seðlabankanum lánuðu fyrirtækin síðan stóru viðskiptabönkunum aftur.

Í kjölfar hruns íslensku bankanna sat Seðlabankinn uppi með ónýt veð, en veðin sem hann tók voru skuldabréf sem voru verðlaus. Eftir stendur að Seðlabankinn er nú að reyna að innheimta skuldirnar og falið lögmannsstofunni að sinna því.

Helgi Jóhannesson, hæstaréttarlögmaður á Lex, segir að í þóknunni séu gerðar ítrustu kröfur. Upphæð þóknunarinnar sé miðuð við gjaldskrá og raunar sé upphæðin aðeins um tólf prósent af því sem hún gæti verið samkvæmt gjaldskrá sé að ræða jafn háan höfuðstól þurfi að reikna verð niður. Semsagt, stofan gæti innheimt átta milljarða. Helgi bendir jafnframt á að ekki sé búist við því að nema brot af upphæðin fáist innheimt og líklegt að þóknunin verði lægri á endanum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×