Innlent

Sagði ekki frá ferð sinni til Feneyja

HAnna Birna Kristjánsdóttir Með Hönnu Birnu í ferð voru einnig Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Ólöf Örvarsdóttir skipulagsstjóri.
HAnna Birna Kristjánsdóttir Með Hönnu Birnu í ferð voru einnig Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Ólöf Örvarsdóttir skipulagsstjóri.

Borgarstjóri gat þess ekki að hún hefði farið í nokkurra daga ferð á Feneyjatvíæringinn um arkitektúr og skipulag í september 2008, þegar hún svaraði fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar borgarfulltrúa um ferðalög sín í borgarráði, 5. janúar síðastliðinn.

Samkvæmt fundargerð borgarráðs, hinn 12. nóvember, spurði Ólafur F. um „kostnað vegna ótiltekins fjölda ferða Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í borgarstjóratíð hennar".

Áfram hélt Ólafur: „Í öðru lagi er spurt í hversu margar ferðir Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur farið."

Hanna Birna svaraði með því að hún hefði farið í sex ferðir á tímabilinu 26. nóvember 2008 til 28. nóvember 2009. Heildarkostnaður þeirra nam einni milljón og 797.376 krónum. Feneyjaferðin er ekki talin með.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu borgarstjóra nam kostnaður Hönnu Birnu við Feneyjaferðina 338.107 krónum.

Ekki náðist í borgarstjóra en aðstoðarmaður hennar, Magnús Þór Gylfason, segir ástæðu þess að ferðin hafi ekki verið talin með vera þá að Hanna Birna hafi farið í hana sem fyrrverandi formaður skipulagsráðs. Skrifstofa borgarstjóra hafi því ekki undirbúið ferðina, heldur var hún „skipulögð af skipulagssviði Reykjavíkurborgar".

Aðspurður segir hann Hönnu Birnu ekki hafa farið í fleiri ferðir á vegum borgarinnar, skipulagðar utan skrifstofu borgarstjóra. Magnús Þór tekur fram að áður hafi verið fjallað um ferðina og kostnað við hana í borgarráði og hún sé því öllum borgarfulltrúum kunn. Fyrirspurn Ólafs F. um hana verði að sjálfsögðu svarað og kostnaði vegna hennar bætt við svar borgarstjóra, þannig að um málið verði enginn misskilningur.

Ólafur F. hyggst flytja vantrauststillögu á borgarstjóra á borgarstjórnarfundi í dag, um „öll þessi atriði og leynimakk borgarstjórans". klemens@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×