Viðskipti innlent

Malcom Walker búinn að setja sig í samband við Arion-banka

Breski kaupsýslumaðurinn Malcolm Walker, forstjóri Iceland verslanakeðjunnar í Bretlandi, hefur óskað eftir viðræðum við Arion banka vegna tilboðs hans og Baugsfeðga í tæplega 96% hlut bankans í Högum.

Malcolm Walker er einn þeirra sem standa að tilboði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, föður hans og annarra fjárfesta í eignarhlut Arion banka í Högum, en feðgarnir freista þess nú að eignast á ný 95,7% hlut í fyrirtækinu sem þeir misstu í nóvember síðastliðnum.

Malcolm Walker, forstjóri Iceland-keðjunnar í Bretlandi hefur sett sig í samband við stjórnendur Arion banka og óskað eftir viðræðum um tilboðið. Þetta fékkst staðfest hjá Arion banka í dag. Þær upplýsingar fengust að stjórnendur bankans hefðu ekki sest niður með Walker enn og ekki væri ljóst hvort af fundinum yrði.

Stjórn Arion banka fundaði m.a um málefni Haga í gær í rúmar fjórar klukkustundir án niðurstöðu. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru skiptar skoðanir um í hvaða farveg málið eigi að fara, en einhverjir innan stjórnarinnar eru þeirrar skoðunar að hafna eigi tilboði Jóns Ásgeirs og félaga og setja hlutinn í söluferli. Aðrir eru þeirrar skoðunar að heppilegast sé að bíða, enda liggi ekki fyrir nægilega miklar upplýsingar um Haga til að taka vel upplýsta ákvörðun.

Eitt af því sem stjórn bankans hefur skoðað er hvort það yrði Högum til tjóns ef tilboðinu yrði hafnað, en samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur það ekki komið til tals að feðgarnir stofni matvörukeðju í beinni samkeppni við verslanir Haga ef Arion banki hafnar tilboði þeirra. Samkvæmt upplýsingum innan úr stjórn Arion banka er þó þetta eitthvað sem stjórnendur bankans hafa haft bak við eyrað vegna tilboðsins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×