Innlent

Alþingi ákvað ekki ákæruna

Helgi Bernódusson Í kærunni minnti hann á 100. grein, um sérstaka vernd Alþingis, en taldi að rannsaka þyrfti hvort aðrar greinar hefðu verið brotnar. fréttablaðið/vilhelm
Helgi Bernódusson Í kærunni minnti hann á 100. grein, um sérstaka vernd Alþingis, en taldi að rannsaka þyrfti hvort aðrar greinar hefðu verið brotnar. fréttablaðið/vilhelm

Skrifstofustjóri Alþingis kærði ekki sérstaklega eftir 100. grein hegningarlaga, sem fjallar um það, þegar ráðist er á Alþingi.

Ríkissaksóknari, Valtýr Sigurðsson, fullyrti hins vegar í blaðinu í gær að svo hefði verið, í máli níu sakborninga sem hafa verið ákærðir fyrir að brjótast inn í Alþingi, þannig að fólk meiddist.

„Ég sagði hins vegar í almennri greinargerð að Alþingi njóti sérstakrar verndar, samkvæmt greininni. En það er ríkissaksóknari sem skrifar ákæruna og metur málsatvik, það er hann sem verður að færa málsgögnin undir hegningarlagagreinarnar,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri.

Í kæru skrifstofustjórans til lögreglu er minnt á að Alþingi njóti þessarar verndar samkvæmt 100. greininni. Einnig er reifað að brot gegn henni þýði að lágmarki eins árs refsingu og allt að lífstíðarfangelsi.

Hins vegar segir í kærunni að skrifstofa Alþingis telji að „þessi atvik [sem kærð eru] verði að rannsaka m.a. með það í huga hvort brotið hafi verið gegn 106. gr. almennra hegningarlaga,“ um brot gegn valdstjórninni. Engin lágmarksrefsing er við henni og hámarksrefsing er sex ára fangelsi. Þá telur skrifstofan að hugsanlega hafi verið brotið gegn fjórum öðrum lagagreinum, sem kveða ekki á um lágmarksrefsingu. - kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×