Innlent

Fullyrðir að leikskólar taki inn börn fram á haust

Ragnar Sær.
Ragnar Sær. Mynd/Stefán Karlsson
Engir sumarstarfsmenn verða ráðnir inn á leikskólana í sumar vegna niðurskurðar Reykjavíkurborgar og því verða færri börn tekin í aðlögun á leikskólana í vor eins og tíðkast hefur.  Formaður leikskólaráðs borgarinnar fullyrðir hins vegar að leikskólarnir taki inn börn að óbreyttu fram á haust.

Á annað hundrað börn bíða nú eftir plássi á ungbarnaleikskólum í Reykjavík, auk þess sem biðlistar hrannast upp hjá dagforeldrum. Fréttastofa hefur rætt við dagforeldra og leikskólastjóra sem óttast að ástandið versni með vorinu og halda því fram að ekki verði tekin inn fleiri börn inn á leikskólana fyrr en í haust.

Ragnar Sær Ragnarsson, formaður leikskólaráðs, segir af og frá og fullyrðir að sú meginregla gildi fram á haust að barn sé tekið inn á leikskólana á móti barni sem fari út. Eina breytingin sé að vegna niðurskurðar Reykjavíkurborgar verði ekki sumarstarfsfólk ráðið inn á leikskólana. Venjan hafi verið að leikskólar hafi tekið inn umfram börn í aðlögun á vorin en þar sem sumarstarfsfólk verður ekki ráðið breytist það. Því verði ekki börn tekin í aðlögun í júní eins og verið hefur heldur verður því líklega frestað fram í ágúst að loknum sumarleyfum leikskólanna.

Um 250 ný börn voru tekin inn á leikskólana í fyrra og segir Ragnar þau aldrei hafa verið fleiri þar sem tókst að fullmanna leikskólana í fyrsta skipti í langan tíma.  


Tengdar fréttir

Leikskólastjóri segir fullyrðingar formanns leikskólaráðs rangar

Leikskólastjóri á ungbarnaleikskólanum Ársól, segir fullyrðingar formanns leikskólaráðs Reykjavíkurborgar rangar um að börn verði tekin inn á leikskólana að öllu óbreyttu fram á haust. Leikskólum sé sniðinn mjög þröngur stakkur og útlit fyrir að fá börn komist inn fyrr en í ágúst. Á annað hundrað börn bíða eftir leikskólaplássi á ungbarnaleikskólum og biðlistar hrannast upp hjá dagforeldrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×