Viðskipti innlent

Japanskur banki vill upplýsingar um afdrif 50 milljón dollara láns

Kaupþing. Mynd úr safni.
Kaupþing. Mynd úr safni.

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að japanski bankinn, The Bank of Tokyo-Mitsubishi, fengi aðgang að sjö gögnum hjá gamla Kaupþingi og Arion Banka til þess að kanna hver urðu afdrif 50 milljón dollara gjaldmiðlaláns sem bankinn lánaði Kaupþingi 39 mínútum áður en skilanefnd tók bankann yfir haustið 2008.

Japanski bankinn óskaði upphaflega eftir því að fá aðgang að 21 gagni hjá íslensku bönkunum. Kaupþing og Arion Banki báru fyrir sig bankaleynd.

Forsaga málsins er sú að Tokyo-Mitsubishi bankinn og Kaupþing gerðu með sér gjaldmiðlasamning 22. september 2008. Þá lagði japanski bankinn 50 milljónir dollara eða um 6,3 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi, inn á reikning JP Morgan í New York. Kaupþing átti svo að leggja samsvarandi upphæð í jenum inn á reikning hjá sama banka.

39 mínútum eftir að Tokyo-Mitsubishi bankinn lagði peninginn inn á reikning JP Morgan tók skilanefnd yfir rekstur Kaupþings.

Í kjölfarið voru 50 milljónirnar lagðar inn á reikning Seðlabankan Íslands í New York en Kaupþing lagði aldrei inn samsvarandi upphæð í jenum inn á reikning JP Morgan.

Nú vill Tokyo-Mitsubishi bankinn fá að vita um afdrif peninganna með það að markmiði að höfða mál vegna þess að Kaupþing uppfyllti ekki skyldur sínar í gjaldmiðlasamningnum sem bankarnir gerðu sín á milli.

Til þess að svo geti orðið þarf bankinn á upplýsingunum að halda. Meðal þeirra upplýsinga sem bankinn fær aðgang að eru öll gögn um það hvar eftirstöðvar af láninu er staðsett.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×