Innlent

Flugmenn Icelandair boða verkfall

Mynd/Teitur Jónasson

Flugmenn Icelandair hafa boðað verkfall sem hefst klukkan sex að morgni fimmtudagsins 4. febrúar og stendur það í tvo sólarhringa eða til klukkan sex að morgni 6. febrúar. Verkfallið hefst svo að nýju klukkan sex fimmtudagsmorguninn 11. febrúar og eru lok þess ótímabundin.

Fram kemur á heimasíðu Félags íslenskra atvinnuflugmanna að ekkert hafi þokast í kjaradeilu félagsins og Icelandair en samningamenn hittust í gærmorgun hjá Ríkissáttasemjara. Ríkissáttasemjari hefur boðað annan fund á morgun fimmtudag.

Flugmenn Icelandair samþykktu verkfallsheimild í rafrænni atkvæðagreiðslu sem lauk síðastliðinn föstudag. 238 flugmenn starfa hjá Icelandair.

Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra atvinnuflugamanna, sagði í samtali við fréttastofu fyrir helgi að flugmenn væru ekki að fara fram á launahækkanir. Samningur flugmanna við Icelandair hefðu verið laus í tæpt ár og að helstu ágreiningsefnin væru hógvær krafa flugmanna um tvö helgarfrí annan hvern mánuð og krafa um breytingar á tryggingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×