Innlent

Samfylkingin blessar ekki auglýsingu prests

Bjarni Karlsson, prestur í Laugarneskirkju, gefur kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Bjarni Karlsson, prestur í Laugarneskirkju, gefur kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Mynd/Haraldur Jónasson
Auglýsing séra Bjarna Karlssonar sem tekur þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar vegna komandi borgarstjórnarkosninga í Fréttablaðinu í dag hefur valdið taugatitringi á meðal annarra frambjóðenda flokksins.

Í prófkjörsreglum er frambjóðendum óheimilt að auglýsa framboð sitt í fjölmiðlum. Þó er frambjóðendum heimilt að auglýsa fundi eða aðra viðburði eins og til dæmis opnun kosningaskrifstofu eða málefnafundar sem tengjast framboði þeirra. Kostnaður við þær auglýsingar má þó ekki fara yfir 300 þúsund krónur og þá má heildarkostnaður við framboðið ekki vera meira en hálf milljón.

Auglýsing Bjarna í Fréttablaðinu í dag.
Bjarni birtir meðalstjóra auglýsingu í Fréttablaðinu í dag þar sem 15 einstaklingar lýsa yfir stuðningi við hann, þar á meðal eru Ilmur Kristjánsdóttir leikkona, Svanur Kristjánsson prófessor í stjórnmálafræði, Óskar Guðmundsson rithöfundur og Ellen Kristjánsdóttir söngkona. Auglýsing Bjarna brýtur þannig þær reglur sem fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík og frambjóðendur í prófkjörinu samþykktu.

Í samtali við fréttastofu sagðist Páll Halldórsson, formaður kjörstjórnar, hafa heyrt af auglýsingunni en ekki hafa náð að kynna sér efni hennar. Kjörstjórn fylgist með að reglum prófkjörsins sé framfylgt og vekur athygli frambjóðenda á því ef hún telur að útaf þeim sé brugðið.

Prófkjör Samfylkingarinnar sem fer fram á netinu hófst á þriðjudaginn og lýkur á laugardaginn. 13 gefa kost á sér. Samfylkingin fékk fjóra borgarfulltrúa kjörna í kosningunum 2006.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×