Lífið

Kveður rokkið og snýr sér að boltanum

Lokatónleikar hljómsveitarinnar Shogun verða á Grand Rokk á laugardagskvöld.
Lokatónleikar hljómsveitarinnar Shogun verða á Grand Rokk á laugardagskvöld.

Söngvari þungarokksveitarinnar Shogun, Ásgeir Börkur Ásgeirsson, hefur sagt skilið við félaga sína og ætlar í staðinn að einbeita sér að fótboltaferlinum með Fylki.

Lokatónleikar Shogun, sem vann Músíktilraunir árið 2007, verða á Grand Rokk á laugardagskvöld. Eftir það skilja leiðir og ætla hinir í hljómsveitinni að stofna nýja hljómsveit með nýjum söngvara.

„Þetta var bara sameiginleg ákvörðun. Þar sem hann er bæði góður söngvari og góður í fótbolta og búinn að vinna svo lengi að því að ná þessum árangri í fótbolta þá er erfitt að koma í veg fyrir það,“ segir Jóakim Sigurðarson, bassaleikari Shogun.

Ásgeiri Berki þykir leiðinlegt að kveðja félaga sína en fótboltinn varð á endanum ofan á. „Við vorum komnir á fullt fyrr í vetur og vorum að spila mikið,“ segir hann um Shogun. „Svo var bara svo mikið að gera í fótboltanum líka og ég tók þá ákvörðun að mig langaði að einbeita mér að honum og gera einhverja hluti þar,“ segir hann og viðurkennir að atvinnumennska sé langtímamarkmiðið. „Stefnan er eins og alltaf síðan ég var lítill að reyna að verða atvinnumaður. Vonandi gerist það einhvern tímann.“

Á fótboltavellinum er hinn 22 ára Ásgeir hörkunagli sem kallar ekki allt ömmu sína. Hann vill þó ekki meina að rokkið hafi kallað fram þennan leikstíl. „Svona spilaði ég alltaf áður en ég byrjaði að hlusta á þungarokk,“ áréttar hann.

Spurður hvort tár muni falla uppi á sviðinu á Grand Rokk hlær Ásgeir. „Ég veit það nú ekki en það verður skrítið að vera ekki í hljómsveit. Ég finn það þegar við erum að æfa fyrir þessa tónleika að það eru ennþá neistar í gangi.“ -fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×