Innlent

Tíu ára í Háskólanum

Vísindavefur HÍ varð tíu ára í dag, 29. janúar. Hlutverk Vísindavefsins er að miðla vísindum til almennings og frá því vefurinn var stofnaður hafa birst um 8.200 svör við spurningum frá almenningi. Alls hafa um 800 höfundar svarað spurningunum. Af því tilefni verður í dag haldið málþing um vísindamiðlun frá ólíkum sjónarhornum.

Á síðasta ári heimsótti rúmlega 1 milljón manns Vísindavefinn og fletti þar rúmlega 2.3 milljónum síðna, samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá Háskóla Íslands. Á meðal þeirra spurninga sem lesendur fengu svar við má nefna: Hvernig myndast öldur á hafinu? Hvernig verka rafhlöður í farsímum? Hvaða afleiðingar hafa pólskipti fyrir lífið á jörðinni? Eru til vísindalegar útskýringar á Nóaflóðinu og hvernig er hægt að berja eitthvað augum?

Á Vísindavefnum eru sérstök „föstudagssvör" við óvenjulegum og fyndnum spurningum á borð við „Af hverju er allt svona mikið vesen?" og „Hvað þýðir Bimbi rimbi rimm bamm?" Þessi föstudagssvör byrjuðu með spurningunni „Af hverju gengur fólk í nærbuxum?" sem var auðvitað svarað í gamansömum tón. Svo spurði einhver hvort það sé rétt að kindurnar í Færeyjum séu með lengri lappir öðrum megin til að geta staðið í brekkunni. Svo fór fólk að gera út á þetta og koma vísvitandi með gamansamar spurningar sem myndu enda í föstudagssvörunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×