Innlent

Steingrímur: Fögnum samstarfsvilja Norðmanna

Mynd/GVA
Fjármálaráðherra segir jákvætt að vilji sé til þess í Noregi að lána Íslendingum fyrir Icesaveskuldbindingunum. Þetta hafi þó ekki verið rætt formlega við norsk stjórnvöld.

Breið samstaða virðist vera að myndast meðal norskra stjórnmálamanna með málstað Íslands í Icesave deilunni við Breta og Hollendinga, þvert á alla stjórnmálaflokka í landinu. Nú síðast hefur Sigbjörn Johnsen, fjármálaráðherra Noregs, ekki útilokað að Norðmenn láni Íslendingum fyrir Icesave skuldbindingunum og semji síðan við Breta og Hollendinga um endurgreiðslurnar.

„Við erum í mjög góðu sambandi við Noreg og þeir fylgjast grannt með málinu og það er velvilji þar til staðar," sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. Það sé hins vegar ekki skynsamlegt að segja meira um málið á þessu stigi.

Steingrímur segir að stjórnarliðar hafi átt góðan fund með forystu stjórnarandstöðunnar í gær og reiknar með að til tíðinda kunni að draga í þessum málum innan skamms. En nú situr hann fund með Jóhönnu Sigurðardóttir forsætisráðherra sem gefur skýrslu um fund sinn með forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Olli Rehn stækkunarstjóra þess í gær.

Steingrímur segir það greinilega möguleika sem ræddur hafi verið í Noregi; að lána Íslendingum fyrir Icesave skuldbindingunum á betri vöxtum en eru í Icesave samkomulaginu. Þetta hafi verið rætt í Noregi. „Við fögnum því að sjálfsögðu að það er vilji og áhugi til staðar," sagði fjármálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×