Skoðun

Góðar fréttir af Icesave

Kristrún Heimisdóttir skrifar um Icesave

Ísland stendur nú í þeim sporum að bæði Icesavelög I og II eru ógild að efni sínu þótt formlega séu þau gild. Þetta þýðir að samningarnir sem Svavarsnefndin gerði eru sennilega sjálfkrafa niður fallnir. Ekki ber á innheimtuaðgerðum eða aðför að eignum af hálfu Bretlands eða Hollands eins og sumir óttuðust enda hafa þessi ríki ekki raunhæf önnur tæki til innheimtu meintrar skuldar Íslands en pólitískar þvingunaraðgerðir sem þeir þess vegna hafa beitt af mikilli hörku frá því málið kom upp.

Bretar og Hollendingar geta skilgreint þessa stöðu með margvíslegum hætti. Þeir tala um upplausn á Íslandi, óstöðugleika í stjórnmálum og að Ísland sé ekki hæft til samninga en þeir gætu sjálfum sér um kennt. Sú harka sem Bretland sýndi Íslandi og bæði ríkin gengust fyrir innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins braut niður lýðræðislegt umboð og stofnanir í landi sem háði glímu á sama tíma við bankakreppu og gjaldmiðilshrun.

Framganga þeirra í garð Íslands í október og nóvember 2008, þegar afgreiðsla efnahagsáætlunar var látin bíða í á fimmtu viku, braut gegn grundvallarreglum og tilgangi AGS og var atlaga að öryggi og velferð íslensks samfélags á viðkvæmustu stundu.

Staðan er að fullveldishafinn út á við sem er ríkisstjórnin, verður að leysa milliríkjadeiluna en getur ekki gert það án fulltingis fullveldishafans inn á við, sem er Alþingi og undan þeim báðum verður sennilega stungið í þjóðaratkvæða­greiðslu 6. mars. Þá flækir enn málið að báðar mögulegar niðurstöður eru afleitar, jáið vegna þess að samþykki í þjóðaratkvæði myndi enn styrkja lögmæti samninga þannig að ógerlegt yrði að breyta síðar.

Hvað gerist þá? Góðu fréttirnar eru að þá stendur eftir ályktun Alþingis frá 5. desember 2008 og samhljóða samkomulag sem allir deiluaðilar milliríkjadeilunnar stóðu að ásamt Evrópusambandinu og voru jafn bundnir af, sem eru Brussel­viðmiðin svonefndu. Viðræður stjórnar og stjórnarandstöðu um sameinaða afstöðu út á við eru þannig ekki í lausu lofti heldur á skýrum grunni.

Hvað eru Brusselviðmið? Þau eru samkomulag um forsendur marghliða samningaviðræðna Íslands, Bretlands, Hollands og Evrópusambandsins. Um þau samþykkti Alþingi ályktun um pólitíska samningaleið 5. desember 2008 og á þeim byggðist afgreiðsla efnahagsáætlunar Íslands í stjórn AGS undir lok nóvember 2008. Hér á eftir skýri ég nánar hvað í þeim fólst, hvernig þeim var fylgt eftir og hvernig ný samninganefnd lét efni þeirra niður falla frá febrúar 2009 með neikvæðum afleiðingum.

Brusselviðmiðin binda bæði íslenska fullveldishafann út á við og fullveldishafann inn á við þannig t.d. að ef ný ríkisstjórn kæmi til mála eftir þjóðaratkvæðagreiðslu þyrfti þingmeirihluta til þess að nema þau úr gildi með nýrri ályktun þingsins. Útilokað virðist að sá meirihluti sé fyrir hendi. Góðu fréttirnar eru einnig að samningarnir frá júní eru þannig gerðir að það er þjóðarhagur að þeir falli niður. Útgangspunktur þeirrar samningagerðar var rangur frá upphafi eins og ég vík nánar að hér á eftir. Aðstæður þýða að samningarnir eru nú þegar lifandi dauðir, afar fáir telja þá góða og þeir eru beinlínis háskalegir ofskuldsettu smærra ríki langt fram í 21. öldina vegna varnarleysis Íslands innan þeirra og óviðunandi veikrar réttarstöðu.

Nægir að nefna algjörlega haldlaus endurskoðunarákvæði því til staðfestingar. Þetta er staða sem Ísland má ekki með nokkru móti selja sig í.

Ríkisstjórnin á að opna málið í heild. Því fyrr því betra.

Ódrepandi Brusselviðmið@Megin-Ol Idag 8,3p :Eftir ályktun Alþingis í desember 2008 var það stærsta einstaka hagsmunamál þjóðarinnar af öllum á þeim tíma, að fylgja Brussel-viðmiðunum eftir samkvæmt orðalagi sínu, en Ísland vissi t.d. að breska fjármálaráðuneytið taldi Bretland hafa samið af sér með viðmiðunum. Með þeim voru Bretar enda búnir að samþykkja marghliða ferli, þar sem taka skyldi tillit til sérstakra og fordæmislausra aðstæðna á Íslandi og nauðsynjar þess að endurreisa efnahagslíf landsins. Þeir voru búnir að samþykkja texta sem fól ekki í sér neitt afsal réttarstöðu fyrir Ísland, ekki viðurkenningu á greiðsluskyldu samkvæmt lögum heldur einungis að EES-réttur gilti eins á Íslandi og hann gerir alls staðar á innri markaðnum. Og þeir voru búnir að samþykkja aðild ESB að málinu. Til að klóra í bakkann beittu þeir sér til að breyta AGS-yfirlýsingu Íslands en tókst ekki að breyta henni þannig að það skuldbindi Ísland umfram Brussel-viðmiðin - í yfirlýsingunni vísar Ísland til þess samningaferlis sem hafið sé þá, þ.e. Brusselviðmiðanna.

Í júní 2009, viku eftir að undirritaðir höfðu verið Icesavesamningar með hraði undir miðnætti á föstudagskvöldi án þess að ríkisstjórn, þingflokkar eða Alþingi fengju að sjá þá eða vita að formleg og óafturkræf undirritun yrði svo skjótt, var ég gestur Hallgríms Thorsteinssonar í Vikulokaþætti á Rás 1 sem tileinkaður var Icesave. Með mér í þættinum var m.a. Huginn Freyr Þorsteinsson, aðstoðarmaður formanns samninganefndar. Þá höfðu samningarnir ekki enn verið birtir þingi og þjóð, að sögn fjármálaráðherra vegna þess að þeir væru „einkaréttarlegir samningar sem trúnaður ríkti um við Breta og Hollendinga". Nokkru síðar var ég frummælandi á ríflega hundrað manna opnum hitafundi Ungra jafnaðarmanna um Icesave ásamt Indriða Þorlákssyni, þá ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, en það sama kvöld voru samningarnir loksins birtir og varð innihald þeirra mörgum þungt áfall, þar á meðal þeirri sem þetta ritar.

Bæði í útvarpsþættinum og á opna fundinum var auðheyrt að hvorki aðstoðarmaðurinn né ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu höfðu tekið Brusselviðmiðin alvarlega og þekktu varla innihald þeirra né skildu mikilvægi þess samningaferlis - pólitísku samningaleiðar - sem Alþingi ákvað að veita framkvæmdavaldinu umboð til með þingsályktun 5. desember 2008. Þegar Alþingi allt náði friðsamlegu samstarfi sumarið 2009 um gerð fyrirvara við Icesavesamningana urðu Brussel-viðmiðin ein meginforsenda þessa starfs til að rétta hlut Íslands og bæta samningana þó að þeirra hafi hvorki verið getið í erindisbréfi í febrúar né samningunum í júní. Þeirra er getið í Icesavelögum II en sú tilvísun er því miður til málamynda.

„Ný nálgun“ Svavarsnefndarinnar@Megin-Ol Idag 8,3p :Á vefsíðunni island.is er að finna erindis­bréf nýrrar samninganefndar sem fjármálaráðherra gaf út 28. febrúar 2009 sem sýnir hvernig Icesavemálið var þar og þá tekið úr marghliða pólitísku samningaferli og umbreytt í tvíhliða lánasamning eingöngu. Það skýrir margt að á island.is er yfirskrift skjalsins: „Ný nálgun - erindisbréf samninganefndar um gjaldeyrislán." Margir töldu að skipun reynds og öflugs sendiherra væri til marks um alþjóðapólitískt eðli samninga­leiðarinnar, en hið gagnstæða kemur í ljós þegar gáð er að því hvernig ráðuneytið lagði verkefnið upp og ber fremur ábyrgð á en sendiherrann. Í erindis­bréfinu, sem varð ekki opinbert fyrr en í júní 2009, er sú óskiljanlega forsenda lögð til grundvallar að Ísland sé þá þegar búið að taka lán enda þótt opinbert og augljóst hafi verið að Bretar og Hollendingar ákváðu einhliða að greiða innistæðu­eigendum svo sem skjalfest er í viðaukasamningum frá júní. Indriði Þorláksson hefur svarað því til í fjölmiðlum að Ísland hafi „í raun tekið lán í október". Sú túlkun er svo algjörlega einstæð að ég hef hvergi fundið hana rökstudda í gögnum málsins. Í henni felst bæði ótrúlegt afsal réttarstöðu og sjálfsákvörðunarréttar Íslands og illbærileg viðurkenning á réttmæti kúgunaraðferða Breta og Hollendinga. Munum að samningarnir leggja allan kostnað á Ísland meðan Bretar og Hollendingar hafa fjárhagslegan hagnað af þeim. Höfum í huga að á þessum grunni greiða Íslendingar vexti til ríkjanna tveggja frá 1. janúar 2009 að telja sem nema ríflega 20 milljörðum íslenskra króna og var þó enginn samningur um lán undirritaður fyrr en í byrjun júní (og er ekki enn kominn á).

Ef samráð við Alþingi hefði eitthvert verið hefði hvorki þetta ákvæði samninganna né mörg önnur nokkurn tíma komist til íslensks samþykkis enda margir þingmenn vel að sér í málinu eftir þingumræður og ályktun Alþingis. Fjárskuld­bindingar höfðu verið með öllu ófrágengnar alveg eins og lánsvilyrði Norðurlandanna, Póllands og Rússlands voru ófrágengin og enduðu misjafnlega.

Í erindisbréfi Svavarsnefndarinnar, sem varð ekki opinbert fyrr en í júní 2009, er hins vegar hvergi minnst á Brussel-viðmiðin og efni þeirra virt að vettugi. Útgangspunktur samninga af nefndarinnar hálfu var þannig óhjákvæmilega Íslandi meira í óhag en efni stóðu til. Að auki var aðild ESB að samningaferlinu látin niður falla sem og tengingin við framgang efnahagsáætlunarinnar innan AGS svo sem ég lýsi nánar hér á eftir.

Ávinningur Íslands af pólitískri samningaleið@Megin-Ol Idag 8,3p :Markmið Íslands eftir ályktun Alþingis meðan ég þekkti til innanfrá voru þjóðréttarlegir samningar um fjölþætta pólitíska lausn deilunnar. Ísland varð að sækja tryggingu um lífvænleg efnahagsleg skilyrði til framtíðar í samstarfi við alþjóðastofnanir og nágranna. Einfaldir einkaréttarlegir lánasamningar voru hins vegar óásættanleg leið með öllu fyrir Ísland. Óleyst deila væri skárri staða en einkaréttarlegir lánasamningar eingöngu.

Vegna alls þessa og óásættanlegra kjara rifti ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks viljayfirlýsingu við Holland sem gerð var í bráðræði 11. október 2008, hafnaði því að gera vilja­yfirlýsingu við Bretland, hafnaði hlutdrægri laganefnd ESB og lét ekki undan gífur­legum þrýstingi um að borga fyrr en tryggð væri pólitík viðspyrna sem landið gæti nýtt sem voru Brusselviðmiðin. Sú niðurstaða um aðkomu þriðja aðila ESB, enga viðurkenningu greiðsluskyldu heldur einungis forsendunnar um einsleitni réttarkerfis innri markaðar Evrópu, um tillit til fordæmislausra aðstæðna á Íslandi og nauðsyn endurreisnar efnahagslífsins og trygging þess að efnahagsáætlun Íslands hlyti loksins afgreiðslu í stjórn AGS. Á móti kom að Ísland lýsti yfir í alþjóðlegri fréttatilkynningu að landið ábyrgðist að lágmarkstrygging upp á ríflega 20 þúsund evrur yrði greidd hverjum hinna þúsunda innistæðueigenda til bjargar trúverðugleika kerfisins en hvernig það yrði gert yrði samið um á grundvelli Brussel-viðmiðanna.

Út úr bóndabeygju nágranna og alþjóðastofnana sem hertist um Ísland sem smærra ríki í október og nóvember 2008 var engin leið að komast nema með pólitískum leiðum byggðum á lögfræðilegri málafylgju og hagfræðilegri yfirsýn. Fjármálaráðuneyti Bretlands og Hollands vildu beita pólitískum þvingunaraðgerðum til að knýja þyngstu greiðslur út úr Íslendingum, pólitíska samningaleiðin varð að vera marghliða til að brjóta þá stöðu upp.

Skyndilega og án samráðs við Alþingi var hins vegar í júní undirritaður hefðbundinn, hreinn einkaréttarlegur lánasamningur við Bretland og Holland. Furðu vakti að sú undirritun Íslands var ekki nýtt til að skuldbinda gagnaðila til að aflétta þvingunaraðgerðum þannig að Bretar og Hollendingar yrðu bundnir af því að tefja ekki meir í stjórn AGS. Þegar allt varð stopp í byrjun ágúst 2009 kom það fjármálaráðherra bersýnilega í opna skjöldu.

Bretar og Hollendingar skrifuðu samningstextana og yfir honum ráða einungis ensk lög og enskir dómstólar, þar kemst enginn þjóðaréttur að og engin sjónarmið önnur er fjármuna- og kröfuréttar. Engin lögfræðileg eða hagfræðileg greining á forsendum samninganna lá fyrir af hálfu Íslendinga þegar samningarnir komu undirritaðir til þingsins. Í viðtali lét formaður samninganefndar þess beinlínis getið að á lögfræðingum hefði nefndin ekki þurft að halda.

Hvernig hvarf skuldbinding ESB?@Megin-Ol Idag 8,3p :Embættismannafundur var haldinn með þátttöku fulltrúa ESB í Haag í framhaldi af samþykkt ályktunar Alþingis í byrjun desember 2008 og sama dag átti utanríkisráðherra Íslands fjölda funda í Helsinki með starfsbræðrum um fyrirkomulag aðkomu ESB, skuldaþol Íslands, hugsan­legar breytingar á Evrusamstarfi, fjármögnunarmöguleika, skilmála og kjör vegna innistæðutrygginga. Átti hún langa fundi með utanríkisráðherrum Frakklands, Spánar, Þýskalands, Hollands og Bretlands auk félaga sinna frá Norðurlöndum og flugvélarfund með Karel Schwarzenberg utanríkisráðherra Tékklands á leið frá Osló til Helsinki í þotu á vegum norsku ríkisstjórnarinnar.

Að öllum þessum fundum loknum var samdóma álit allra sem að komu að velvilji innan ESB væri meiri en við höfðum vænst og andrúmsloftið hefði breyst til batnaðar. Íslendingar vildu fylgja formlegu marghliða ferli fast eftir en um leið töldu allir að tíminn myndi vinna með Íslandi, ógnin af allsherjarhruni bankakerfa í Evrópu og víðar, sem hafði haft gríðarleg áhrif á hörkuna sem Íslandi var sýnd, var í rénun. Þetta var einnig ábending sumra af evrópsku ráðherrunum.

Af hverju kom ESB ekki neitt að samningunum frá júní 2009? Staðreyndin er að fjármálaráðherra hafði aldrei samband til Brussel. Því var ekki fylgt eftir sem þó stóð svart á hvítu í Brussel-viðmiðunum og ályktun Alþingis. Ef samráð við þingflokka hefði eitthvert verið hefði ráðherra verið bent á efni umboðs síns frá Alþingi.

Hvernig var samningaferlið þá?@Megin-Ol Idag 8,3p :Á opnum fundi Ungra jafnaðarmanna í júní var samningaferlinu lýst sem alls óformlegu, engir formlegir samningafundir hefðu verið haldnir og miklum tíma varið til að sannfæra Hollendinga og Breta um samningsvilja Íslendinga. Ljóst er að andstaða VG við pólitíska samningaleið og Brusselviðmið voru alþekkt meðal annarra ríkja þegar flokkurinn tók málið í sínar hendur í febrúar 2008 en á hinn bóginn mælti stjórnarsáttmálinn fyrir um samninga um Icesave. Í stað þess að skipta opið og heiðarlega um skoðun og kynna nýjan samningsvilja sinn fyrir ríkisstjórnum á Norðurlöndum, framkvæmdastjórn AGS og Evrópusambandinu fór allt fram í leyni hér heima og erlendum samskiptum var haldið á lægri stigum embættismanna. Ekki er vitað til þess að fjármálaráðherra hafi átt fundi með erlendum ráðherrum um Icesave fyrr en í september 2009. Þá voru liðnir sjö mánuðir frá því hann tók við málinu og Alþingi búið að vinna að fyrirvörum í þrjá mánuði samfleytt.

Aftur á rétta braut@Megin-Ol Idag 8,3p :Ísland má ekki gera sjálfu sér að axla byrðarnar hljóðalaust. Eva Joly hefur réttilega bent Íslendingum á að þeir séu ekki einstök glæpaþjóð heldur hafi íslenskir bankar og viðskiptajöfrar verið hluti af alþjóðlegu fjármálakerfi sem brokkar áfram óbreytt þrátt fyrir hamfarir haustsins 2008. Formaður samninganefndar sagði hins vegar í blaðaviðtali um samningsniðurstöðuna í júní 2009 að Ísland væri „lamb Guðs sem bæri burt heimsins syndir". Sú trú er, þegar að er gáð, fullkomlega ábyrgðarlaus gagnvart bæði alþjóðasamfélaginu og Íslandi - að það sé Íslands að taka að sér að grafa syndina hjá sér eins og hvern annan kjarnorkuúrgang svo að voldugri ríki a.m.k. jafn bersyndug taki enga ábyrgð er auðvitað trygging þess að enginn læri neitt.

Mikið hefur breyst á rúmu einu ári. Ég hef sjálf á langri leið málsins oft talið upp vandamálin við óvissuna um Icesave á opinberum vettvangi, en nú er svo komið að Icesave er hluti af stærra viðfangsefni sem er ofskuldsetning landsins. Þorvaldur Gylfason og Ólafur Ísleifsson hafa báðir réttilega bent á að staða efnahagsáætlunar Íslands og AGS hefur hríðversnað á árinu 2009. Ísland þarf að víkka sjónarhornið af þeim sökum. Þeir fjölmörgu málsmetandi aðilar í öðrum löndum sem á síðustu vikum hafa tekið undir málstað Íslands skilja allir þetta samhengi og eru mikilvægir bandamenn. Það er ekkert í boði nema samstaða Alþingis út á við um marghliða samningaviðræður helst með aðkomu þriðja aðila með heildarmyndina á samningaborðinu. Sömu grundvallaratriði Brusselviðmiðanna eiga enn við þótt staða efnahagsmála sé verri en vænst var. Fjórtán mánuðum eftir að Alþingi samþykkti þingsályktun um pólitíska samningaleið erum við komin aftur á þá réttu braut, sem betur fer. Fundur forsætisráðherra með Barroso í Brussel gaf góð fyrirheit. Norðmenn eru komnir í sama lið og Færeyingar. Það eru góðar fréttir. Ísland verður að sanna sig fyrir sjálfu sér og öðrum á réttum forsendum.

Höfundur var aðstoðarkona utanríkisráðherra 2007 til 2009 og lögfræðilegur ráðgjafi félagsmála-ráðherra 2009 til 2010. Er nú sjálfstætt starfandi lögfræðingur og ber alfarið sjálf ábyrgð á efni greinarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×