Innlent

Orkuveitan og Ölfus í samningum um kísilver

Samningar eru í burðarliðnum um risastóra kísilverksmiðju í Þorlákshöfn. Fjárfestingin næmi um 150 milljörðum króna og yfir þrjúhundruð framtíðarstörf skapast.

Samningar um verksmiðju sem framleiddi kísil í sólarrafhlöður voru raunar langt komnir fyrir tveimur árum við norskt fyrirtæki en það hætti við og ákvað að reisa verksmiðjuna í staðinn í Kanada. Nú er það hins vegar fyrirtæki vestanhafs sem áformar slíka uppbyggingu við Þorlákshöfn en samkvæmt heimildum Stöðvar 2 er stefnt að því að samningsrammi um verksmiðjuna verði undirritaður á næstu dögum milli fyrirtækisins, Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagsins Ölfuss.

Þetta yrði gríðarstórt verkefni, sannkölluð stóriðja. Umfang framkvæmda slagar upp í hálft álver, og yfir þrjúhundruð framtíðarstörf verða til, þar af um eitthundrað sem krefjast háskólamenntunar. Undirritun skilar málinu þó ekki í höfn, stór óvissuþáttur verður óleystur fyrir Orkuveituna; að tryggja sér lánsfé til virkjanaframkvæmda.

Athygli vekur að ríkisstjórnin kemur hvergi nærri undirbúningi þessa verkefnis en henni hefur, þrátt fyrir gefin fyrirheit í stöðugleikasáttmála, ekki tekist að koma stórframkvæmdum í gang í landinu en mátt sitja undir gagnrýni fyrir að tefja og hindra slík áform.

Orkuveita Reykjavíkur hyggst selja orku Hverahlíðarvirkjunar til kísilversins en sú orka myndi annars að öllum líkindum fara til álvers í Helguvík. Tímabundið forgangsréttarákvæði tryggir hins vegar Sveitarfélaginu Ölfusi þessi 90 megavött frá Hellisheiði, svo fremi að kaupandi finnist þar fyrir lok maímánaðar næstkomandi. Takist samningar um kísilver færi orkan þannig til Þorlákshafnar en jafnframt myndi aukast óvissa um orkuöflun fyrir álver í Helguvík.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×