Innlent

Steingrímur: Stefnt að viðræðum í næstu viku

Mynd/Anton Brink
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, vonast til þess að nýjar viðræður við Breta og Hollendinga í Icesavedeilunni hefjist í næstu viku. Það sé þó ekki frágengið. Staðan í málinu sé ákaflega viðkvæm og aðstæðurnar brothættar. Þetta kom fram í viðtali á Rás 2 í morgun.

Hann vildi ekki fara út bollaleggingar um samningsmarkmiðin í fyrirhuguðum viðræðum. Markmiðið væri auðvitað að ná betri samningi við bresk og hollensk stjórnvöld.

Steingrímur gagnrýndi fréttir RÚV af málinu í gær. Þar kom fram að tillaga stjórnvalda til viðsemjenda sinna snúist um að lán Breta og Hollendinga vegna Icesave reikninga Landsbankans verði borgað með greiðslum úr þrotabúi bankans þar sem Íslendingar vilji ekki fallast á greiðslu vaxta.

„Þetta er ótímabær og skaðlegur fréttaflutningur og hjálpar ekki neitt. Það er allt í lagi að það komi fram að Ég bað Ríkisútvarpið í gær fyrir hádegisfréttirnar að birta ekki frétt sem þó var birt," sagði Steingrímur og bætti við að fréttin hafi verið röng og skaðleg þar sem viðræðurnar við Hollendinga og Breta væru ekki hafnar. Fréttin hafi valdið skaðlegum áhrifum.

„Það getur ekki verið mikilvægara fyrir Ríkisútvarpið að skúbba einni rangri frétt heldur en fyrir Ísland að finna farsæla lausn á þessu máli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×