Enski boltinn

Hvað gerist ef Portsmouth verður hent úr úrvalsdeildinni?

Arnar Björnsson skrifar

Enska fótboltaliðið Portsmouth, sem landsliðsfyrirliðinn Hermann Hreiðarsson spilar með, fékk í gær frest fram í næstu viku til þess að greiða um 12 milljóna punda skattaskuld.  

Takist félaginu ekki að greiða skuldina verður félagið lýst gjaldþrota og því vísað úr úrvalsdeildinni. 

Úrslit leikja Portsmouth í vetur verða þá þurrkuð út og þá breytist stigataflan.  

Portsmouth tapaði báðum leikjunum við Manchester United og Arsenal og þau lið myndu tapa 6 stigum, Chelsea vann Portsmouth á heimavelli en á eftir að spila útileikinn, Chelsea myndi því tapa 3 stigum. 

Liverpool myndi hagnast mest af liðunum í efstu sætunum því Portsmouth vann Liverpool 2-0 í desember. 

Verði Portsmouth rekið úr deildinni yrði ný stigatafla þannig að Chelsea væri með 55 stig en Manchester United 51 og ætti leik til góða. Munurinn á Arsenal og Liverpool sem eru í 3. og 4. sæti yfir samkvæmt nýrri töflu aðeins 2 stig í stað 8 núna. 

Arsenal ætti þá reyndar leik til góða gegn Liverpool.  Forystumenn úrvalsdeildarinnar vilja allt til þess vinna til að halda Portsmouth í deildinni. 

Það yrði mikið áfall fyrir deildina verði ef til þess kæmi að Portsmouth yrði vísað úr keppni.  Lið sem falla úr úrvalsdeildinni fá greiddar skaðabætur í 3 ár enda tekjumöguleikarnir miklu minni hjá liðum sem spila í neðri deildunum.  

Samkvæmt frétt í Daily Mail í morgun er það til skoðunar að greiða Portsmouth fyrirfram 11 milljónir punda sem félagið annars fengi 1. ágúst falli það úr deildinni. 

Úrvalsdeildin þarf að fá samþykki allra liða í deildinni til þess að þessi hugmynd gangi eftir. 

Portsmouth hefur þegar samið við flesta skuldareigendur en skattayfirvöld standa fast á sínu.  ortsmouth hefur tíma fram til klukkan 16 á miðvikudag til að semja við skattayfirvöld. 

Á meðan reynir nýi eigandinn að selja félagið en tveir fjárfestar eru sagðir í viðræðum um kaupin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×