Erlent

Evrópusambandið flengir Grikki

Óli Tynes skrifar

Evrópusambandið hefur sýnt vanþóknun sína og mátt sinn með því að svipta Grikkland atkvæðisrétti á fundi sem haldinn verður í næsta mánuði.

Það er að vísu aðeins táknrænn gjörningur sem hefur svosem enga praktiska þýðingu. Fréttaskýrendur segja hinsvegar að niðurlægingin sé skelfileg.

Viðskiptaritstjóri breska blaðsins Daily Telegraph segir til dæmis að þetta séu vatnaskil og gríðarlegur missir sjálfstæðis.

Evrópusambandið segir að Grikkir verði að verða við kröfum um niðurskurð og skattahækkanir fyrir sextánda næsta mánaðar, eða missa vald yfir eigin skattheimtu og útgjöldum.

Ef Grikkir verði ekki við kröfunum muni Evrópusambandið sjálft fyrirskipa niðurskurð samkvæmt hundrað tuttugustu og sjöttu grein Lisbon sáttmálans.

Það þýðir í raun að Grikkland verður nánast réttindalaust kotbýli í léni Evrópusambandsins.

-Við munum sannarlega ekki sleppa þeim af króknum, hefur Daily Telegraph eftir Josef Proll fjármálaráðherra Austurríkis. Þar bergmálar hann skoðanir starfsbræðra sinna í Norður-Evrópu.

Sumir þýskir embættismenn vilja að Grikkland verði með öllu svipt atkvæðisrétti þangað það skreiðist út úr gjaldþroti.

Evrópusambandið neitar enn að upplýsa á hvern hátt það gæti hugsanlega komið Grikklandi til aðstoðar.

Öll áherslan er á að segja Grikkjum að það sé þeirra eigið mál að koma landinu á réttan kjöl.

Í Þýskalandi telja margir það vænlegri kost að reka Grikkland úr evru myntbandalaginu frekar en koma því til hjálpar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×