Innlent

Þingmaður hjólar í Evu Joly - telur framlag hennar ofmetið

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og varaformaður fjárlaganefndar.
Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og varaformaður fjárlaganefndar.
Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, telur framlag Evu Joly, ráðgjafa sérstaks saksóknara, í Icesavemálinu ofmetið. Hún hafi ekki lagt meira af mörkum en hver annar pistlahöfundur.

Björn Valur segir í pistli á heimasíðu sinni að Joly hafi verið fengin til þess að aðstoða ákæruvaldið við rannsókn á falli bankanna. „Það er hennar sérsvið og þar er hún góð."

Hann undrast aftur á móti hversu margir telji að hún hafi lagt mikið af mörkum við lausn Icesavedeilunnar. „Hvert er hennar framlag? Hvaða aðkomu hefur hún haft að því máli aðra en þá að skrifa greinar og veita fjölmiðlum viðtöl? Mér vitanlega hefur Eva Joly ekki lagt neitt meira af mörkum en hver annar pistlahöfundur í þessu erfiða máli og tillögur hennar hafa oftar en ekki hvorki þótt á góðum rökum reistar né til þess fallnar að styrkja málstað Íslands sérstaklega," segir þingmaðurinn.

Björn Valur segir að lausn Icesavedeilunar felist í því að Íslendingar byggi mál sitt á raunhæfum lausnum en ekki því sem hann kallar draumkenndar hugmyndir um auðvelda lausn í málinu líkt og Joly og fleiri haldi að sé í spilunum. „Það er engum greiði gerður með slíkum málflutningi, hvort sem honum er haldið á lofti af Evu Joly eða öðrum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×