Innlent

Óttuðust þjóðargjaldþrot 2011

Einar Gunnarsson
Einar Gunnarsson

Þeir Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, og Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, funduðu með Sam Watson, sem stýrir sendiráði Bandaríkjanna hér á landi þar sem sendiherra hefur ekki verið skipaður.

Í trúnaðarskjali sem sent var frá sendiráðinu til bandarískra stjórnvalda, og birt var á síðunni Wiki­leaks í gærkvöldi, er haft eftir Einari að fari allt á versta veg í Icesave-málinu gæti Ísland orðið gjaldþrota strax á næsta ári.

Einar og Kristján sögðu íslensk stjórnvöld þurfa alþjóðlegan stuðning í baráttu sinni við Breta og Hollendinga. Watson sagði á móti bandarísk stjórnvöld ætla að halda hlutleysi í málinu.

Í minnisblaðinu er í framhaldinu haft eftir þeim Einari og Kristjáni að slíkt hlutleysi væri í raun ómögulegt þegar tvö stór lönd væru að kúga lítið land.

Í skjalinu kemur einnig fram að Watson hafi fundað með Ian Whiting, sendiherra Bretlands á Íslandi. Haft er eftir Whiting að bresk stjórnvöld hafi fengið misvísandi skilaboð frá íslenskum stjórnvöldum. Fyrst hafi þau talað fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu en svo vilji þau nýja samninga. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×