Enski boltinn

Bellamy og Mancini rifust eins og hundur og köttur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Craig Bellamy og Roberto Mancini.
Craig Bellamy og Roberto Mancini. Mynd/AFP

Það er allt komið upp í háaloft á milli Craig Bellamy og Roberto Mancini, stjóra Manchester City samkvæmt frétt á The Times eftir að þeir rifust eins og hundur og köttur í gærkvöldi. Bellamy var mikill stuðningsmaður Mark Hughes og margir voru búnir að bíða eftir því að upp úr syði á milli þeirra.

Samskipti þeirra Bellamy og Mancini í gær enduðu á því að Mancini öskraði á velska framherjann og skipaði honum að láta ekki sjá sig hjá félaginu næstu þrjá mánuðina. Upphafið að rifildi þeirra var að Bellamy neitaði að mæta á aukaæfingu hjá einum af ítölsku aðstoðarþjálfurum Mancini.

Garry Cook, stjórnarformaður City og Brian Marwood, yfirmaður fótboltamála, höfðu samband við Bellamy þegar hann var rokinn heim og báðu hann um að biðja Mancini afsökunar. Bellamy var þó ekki á því.

Manchester City mætir Liverpool á sunnudaginn í einum af úrslitaleikjunum í baráttunni um fjórða sætið og þar með síðasta sætið inn í Meistaradeildina á næsta tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×