Innlent

Erfitt að átta sig á stöðunni

Víglundur Erfitt er að átta sig á fjárhagslegri stöðu BM Vallár þar sem fyrirtækið hefur aldrei skilað ársreikningi.
Víglundur Erfitt er að átta sig á fjárhagslegri stöðu BM Vallár þar sem fyrirtækið hefur aldrei skilað ársreikningi.

Eigið fé BM Vallár, sem óskaði eftir greiðslustöðvun í byrjun mánaðar, var neikvætt um þrjá milljarða króna um síðustu áramót. Óskar Sigurðsson, aðstoðarmaður félagsins í greiðslustöðvun, segir ekki útilokað að staðan sé verri.

Kröfuhöfum var kynnt fjárhagsleg staða BM Vallár í gærmorgun og samþykkti meirihluti þeirra að óska eftir framlengingu greiðslustöðvunar á miðvikudag í næstu viku fremur en að setja félagið í þrot.

Á milli sjötíu og áttatíu kröfuhafar mættu á fundinn.

Skuldir BM Vallár eru að mestu í erlendri mynt og vegur það þungt í efnahagsreikningi félagsins. Samkvæmt því sem fram kom í lánabók Kaupþings, sem lak á netið fyrir þrot bankans haustið 2008, skuldaði BM Vallá bankanum 62 milljónir evra, jafnvirði ellefu milljarða íslenskra króna.

Erfitt er að glöggva sig á fjárhagslegri stöðu BM Vallár en félagið hefur aldrei skilað ársreikningi. Þegar Víglundur Þorsteinsson, stjórnarformaður félagsins, var spurður út í ástæðu þessa í byrjun mánaðar sagði hann bækurnar opnar þeim sem málið skipti og bætti við:

„Ég spyr ekki hvernig nærbuxum þú ert í." Hann vildi ekki tjá sig um málið í gær og vísaði á Óskar.- jab



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×