Innlent

Framkvæmdastjórn ESB mælir með viðræðum

Heimir Már Pétursson skrifar

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mælir með því við leiðtoga sambandins að hafnar verði viðræður við Íslendinga um aðild að sambandinu. Íslendingar uppfylli öll helstu skilyrði aðildar en verði að breyta löggjöf sinni varðandi sjávarútveg, landbúnað og fleira. Hluti efnahagsvanda Íslendinga nú, sé að bankarnir hafi verið einkavinavæddir á sínum tíma.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti leiðtogum sambandsins í morgun að Íslendingar uppfylltu öll helstu skilyrði þess fyrir aðildarviðræðum. Landið væri hluti af Evrópska efnahagssvæðinu sem næði yfir meirihluta regluverks sambandsins.

Miðað við aðildarríki sambandsins hefði Íslendingum gengið vel að innleiða regluverk Evrópusambandsins.

Í ítarlegri skýrslu til leiðtoganna er meðal annars fjallað um einkavæðingu bankanna á sínum tíma. Þar er sagt hvernig til stóð að tryggja breitt eignarhald á bönkunum, sem síðar hefði verið fallið frá og einkavinavæðing náð yfirhöndinni. Með pólitískum ákvörðunum hafi bönkunum verið komið í hendur viðskiptasamsteypa sem af lítilli reynslu hafi þanið út bankakerfið.

Núverandi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er nýskipuð og eru meðmælin með aðildarviðræðum við Íslands ein af hennar fyrstu verkum, en nýr stækkunarstjóri er Stephane Fule frá Tékklandi. Búist er við að leiðtogafundur sambandsins dagana 25. til 26. mars samþykki tillögu framkvæmdastjórnarinnar.

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið nær yfir meirihluta regluverks sambandsins. Framvæmdastjórnin segir Íslendinga verða að gera átak í að samræma löggjöf landsins og sambandsins og eða innleiða tilskipanir varðandi sjávarútveg, landbúnað, þróun landsbyggðarinnar, umhverfismál, frjálst flæði fjármagns og fjármálaþjónustu.

Þá verði að samræma reglur í tollamálum, skattheimtu, hagtölum, matvælaöryggi sem og stefnuna í plöntu og grænmetismálum ásamt fleiru. Einnig þurfi að auka sjálfstæði dómstóla í landinu og styrkja ferlið við skipan dómara með það fyrir augum að koma í veg fyrir klíkuskap.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×