Innlent

Fleygðu manni fram af svölum í Vogum

Svalir. Eftir að manninum hafði verið fleygt rænulitlum fram af svölunum tóku tveir mannanna til við að berja hann þar sem hann lá á gangstéttinni fyrir utan húsið. Myndin er úr safni.Fréttablaðið/stefán
Svalir. Eftir að manninum hafði verið fleygt rænulitlum fram af svölunum tóku tveir mannanna til við að berja hann þar sem hann lá á gangstéttinni fyrir utan húsið. Myndin er úr safni.Fréttablaðið/stefán

Fimm menn á aldrinum 20 til 22 ára hafa verið ákærðir fyrir hrottalega árás á rúmlega þrítugan mann í Vogum á Vatnsleysuströnd fyrir ári.

Samkvæmt ákærunni réðust fjórir mannanna á fórnarlambið, slógu hann ítrekað í höfuðið og víðs vegar um líkamann með hnefum og borðfótum úr stáli. Sá fimmti barði manninn í kviðinn á meðan.

Einn þeirra settist í kjölfarið ofan á manninn, sló hann ítrekað og tók hann kverkataki þannig að maðurinn var að lokum við það að missa meðvitund. Að því loknu var manninum kastað niður af fjögurra metra háum svölum og lenti á hellulagðri gangstétt fyrir utan. Þá réðust tveir mannanna að honum þar sem hann lá meðvitundarlítill á götunni og spörkuðu ítrekað í hann.

Fórnarlambið hlaut nefbrot, opið sár á höfði, samfallsbrot á lendarlið, brotnar tennur og aðra áverka víðs vegar um líkamann.

Þrír mannanna tóku afstöðu til sakarefnisins við þingfestinguna í gær. Þeir játuðu barsmíðarnar að einhverju marki, en neituðu að hafa beitt borðfótum. Þeir, sem gefið er að sök að hafa tekið manninn kverkataki og kastað honum fram af svölunum, neituðu því staðfastlega. Hinir tóku sér frest til að fara yfir málið með verjendum.

Allir mennirnir búa í Vogum og höfðu einhverjir þeirra, þegar árásin varð, átt í illdeilum við fórnarlambið um nokkurt skeið, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Hafði hann að þeirra sögn tekið bíl eins þeirra ófrjálsri hendi, auk þess sem kvennamál höfðu valdið sundurlyndi.

Einn árásarmannanna fullyrðir að fórnarlambið hafi reynt að kýla sig í samkvæmi fyrr um kvöldið en ekkert liggur því til sönnunar.

Enginn mannanna á mikla afbrotasögu að baki.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×