Viðskipti innlent

Bankamenn í stjórnum 48 fyrirtækja

Ábyrgðarmenn bankanna. Birna Einarsdóttir Íslandsbanka, Finnur Sveinbjörnsson Arion og Ásmundur Stefánsson Landsbankanum.
Ábyrgðarmenn bankanna. Birna Einarsdóttir Íslandsbanka, Finnur Sveinbjörnsson Arion og Ásmundur Stefánsson Landsbankanum.

Stóru viðskiptabankarnir þrír, Arion, Íslandsbanki og Landsbankinn, hafa að undanförnu skipað fjölda fólks í stjórnir samtals 48 fyrirtækja.

Hafa þær ráðstafanir komið í kjölfar yfirtöku bankanna á fyrirtækjunum, að hluta eða öllu leyti.

Íslandsbanki hefur skipað fólk í stjórnir 21 fyrirtækis, Landsbankinn í átján og Arion í níu. Að auki hefur Arion sett yfirtekna eignarhluti í fyrirtækjum í sérstök félög sem hafa eigin stjórnir.

Þessar upplýsingar koma fram í svari fjármála­ráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur Samfylkingunni.  Ráðherra leitaði til bankanna sjálfra um svör.

Í svari Íslandsbanka kemur fram að bankinn hefur ekki sett sér reglur um stjórnarskipanir og jafnframt að fjórðungur stjórnarmanna á hans vegum eru konur.

Arion greinir aðeins frá stjórnarskipan í félögum sem „hafa verið í opinberri umræðu“ og ber við ákvæðum laga um trúnaðarskyldu. Segist bankinn stefna að jafnrétti kynjanna við skipun í stjórnir. Af gögnum bankans má ráða að konur skipa tvö stjórnar­sæti af þeim fjórtán sem bankinn hefur ráðstafað í fyrirtækjum sem teljast til úrvinnsluverkefna.

Landsbankinn kveðst hafa sett sér virka jafnréttis­stefnu sem gildi um skipun manna í stjórnir. Hún taki mið af jafnréttislögum. Engu að síður kemur fram í upptalningu bankans á stjórnarfólki að af 47 stjórnarsætum sitja konur í þremur. - bþs





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×