Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, óttast að fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave geti orðið hálfgerð markleysa þar sem fyrir liggur mun betra tilboð frá Bretum og Hollendingum. Breska dagblaðið The Times telur líklegt að Ísland einangrist á Alþjóðavettvangi náist ekki að leysa deiluna.
Upp úr slitnaði í viðræðum samninganefndar Íslands við Breta og Hollendinga á fimmtudag. Bretar og Hollendingar vildu ekki fallast á gagntilboð Íslendinga sem fól í sér stighækkandi vexti fram til ársins 2016 og þriggja ára vaxtafrí. Bretar og Hollendingar höfðu áður boðið lækkun vaxta og tveggja ára vaxtafrí. Það þýðir hins vegar að Bretar og Hollendingar hagnast um 90 milljarða króna á samkomulaginu. Á það vildi íslenska samninganefndin ekki fallast og því var ákveðið að slíta viðræðum. Aðrir fundir hafa ekki verið boðaðir.
Fram kemur í breska dagblaðinu The Times í dag að Ísland gæti einangrast á alþjóðavettvangi finnist ekki lausn á Icesave deilunni. Blaðið telur líklegt að þetta stefni samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðin í hættu og aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave á að fara fram eftir viku. Forsætisráðherra útilokar ekki að hægt verði að ná samkomulagi fyrir þann tíma.
„Manni finnst eins og staðan er núna að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla geti orðið hálfgerð markleysi þegar við erum þegar með tilboð í höndunum sem er betra en það sem er í þessum lögum og þar erum við að tala um 70 milljarða lægri greiðslubyrði. Þá spyr maður um hvað á þessi þjóðaratkvæðagreiðsla að vera," segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

