Erlent

Hvar í fjandanum er brauðið?

Óli Tynes skrifar
Christine Balmer safnaði þessum fiskum af himni saman í fötu.
Christine Balmer safnaði þessum fiskum af himni saman í fötu.

Íbúum í smábænum Lajamanu í Ástralíu brá heldur betur í brún þegar það byrjaði að rigna yfir þá fiskum.

Lajamanu er í útjaðri Tanami eyðimerkurinnar í Norður-Ástralíu mörghundruð kílómetra frá sjó. Íbúarnir eru aðeins 650.

Christine Balmer var fótgangandi á leið heim til sín þegar fiskunum fór að rigna. Hún sagði að þeir hefðu ennþá verið spriklandi og fólk hafi stokkið um til þess að safna þeim í fötur.

-Það voru hundruð og aftur hundruð af þeim, sagði Christine.

Veðurfræðingar segja að þótt þetta sé sjaldgæft sé þetta síður en svo óþekkt fyrirbrigði.

Þetta gerist þannig að skýstrókar sjúgi upp vatn og fiska úr ám eða stöðuvötnum sem þeir fari yfir og skili því af sér kannski langt í burtu.

Trúleysinginn í Lajamanu er sagður hafa litið til himins þegar þetta gerðist og öskrað: -Hvar í fjandanum er brauðið?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×