Ein af afleiðingum þess að Norðurskautsleiðin opnast er að siglingarleiðin frá Kína til Evrópu mun styttast verulega en sem stendur senda Kínverjar flutningaskip sín annað hvort um Súez- skurðinn eða suður fyrir Afríku.
Kínverjar eru nú, samkvæmt Wade, að skipuleggja byggingu risastórra flutningaskipa sem verða sérstyrkt til siglinga í ís til að nýta sér styttri siglingaleiðina. En það þýðir að umskipa þarf farmi þeirra áður en hann fer á markað í Evrópu. „Ein augljós staðsetning er Ísland sem situr á innganginum að, eða útganginum, á hafinu við Norðurskautið," segir Wade í bréfi sinu. „Landið hefur nokkra firði sem hægt er að nota fyrir slíkar hafnir."
Wade segir að þetta geti skýrt óvenjulega vinalegt samband Kína við litla Ísland. Hann nefnir sem dæmi að kínverska sendiráðið á Íslandi sé það stærsta af öllum sendiráðum. Þegar forseti Íslands fór í opinbera heimsókn til Kína árið 2007 var tekið á móti honum eins og um þjóðhöfðingja stórveldis væri að ræða.
Þá nefnir Wade einnig þá staðreynd að Kína studdi opinberlega við tilraunir Íslands til að fá fulltrúa í Öryggisráð SÞ og aðstoðaði við að ná stuðningi hjá litlum þjóðum í Kyrrahafi og Karabíska hafinu.
Rússland hefur svo sinn eigin áhuga á Íslandi. Rússar hafa áhyggjur af því að ESB sé að reyna að ná áhrifum í málefnum Norðurskautsins og gæti notað Ísland sem leið til þess. Rússar líta á Íslendinga sem sameiginlega Norðurskautsþjóð sína og er annt um að Ísland haldi sig utan ESB.
„Breskir og hollenskir samningamenn sem þjarma að Íslendingum ættu að hafa í huga vaxandi mikilvægi staðsetningar Íslands nú þegar heimskautsísinn er að bráðna," segir Wade að lokum. „Íslendingar eru langminnugir og sækja sér styrk í máltæki Kissingers „the tyranny of the tiny"."