Viðskipti innlent

Finnar ætla ekki að lána Íslandi fyrr en Icesave klárast

 

Talsmaður finnska fjármálaráðuneytisins, Ilkka Kajaste, sagði í viðtali við Finnska ríkissjónvarpið YLE í dag að Finnar myndu ekki lána Íslendingum pening fyrr en samkomulag um Icesave lægi fyrir. Finnar er ein af Norðurlandaþjóðunum sem ætlar að lána Íslandi 1,8 milljarð evra svo endurreisn efnahagslífsins geti hafist í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hluti af láninu hefur þegar verið greitt út en það stendur á restinni.

Hann sagði jafnframt að ómögulegt væri að segja til um það hvenær Íslendingar, Hollendingar og Bretar nái samkomulagi. Þá segir hann einnig erfitt að segja til um það hvenær lánið yrði greitt út eftir að samkomulag væri í höfn.

Það rímar við viðbrögð annarra leiðtoga Norðurlandanna sem hafa gert Icesave málið að skilyrði áður en lánið verði greitt út.

 

Það var Reuters sem greindi frá viðtalinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×