Innlent

Ömurleg saga litháísku stúlkunnar

Enginn vafi er í huga fjölskipaðs héraðsdóms Reykjaness að nítján ára litháísk stúlka, sem kom hingað til lands seint í fyrra, sé fórnarlamb mansals. Ítarlega er greint frá aðstæðum hennar í dómi yfir fimm Litháum sem í dag voru dæmdir í fimm ára fangelsi hver fyrir mansal.

Ung hneppt í vændisánauð

Stúlkan var hneppt í vændisánauð í Litháen, þegar hún var 17 eða 18 ára. Hún bar fyrir dómi að henni hefðu verið byrluð eiturlyf, í heimalandi sínu. Við slíkt tækifæri hefði hún vaknað inni í íbúð þar sem hún ekki komst út. Meðan hún var lokið inni í íbúðinni var hún neydd til vændis.

Brotin niður og dópuð

Sannað þykir fyrir héraðsdómi að stúlkan hefði átt að stunda vændi hérlendis. Segir í dóminum að framburður stúlkunnar hafi í upphafi verið á reiki. Til að mynda hafi hún ekki gefið upp rétt nafn. Vísað er til alþjóðlegra skilgreininga um að fórnarlömb mansals verði fyrir sálrænu áfalli þegar þeim hafi verið hótað og þau beitt ofbeldi. Þau séu oft send félítil til annarra landa. Þar séu þau ólögleg og treysti sér þess vegna ekki til þess að gefa sig fram við yfirvöld. Þegar fórnarlömb hafi verið brotin niður telji þau sig oft háða gerendunum og treysti þeim betur en lögreglunni.

Átti ekkert val

Eftir að stúlkan kom til landsins var henni komið fyrir í íbúð í Keflavík. Þaðan hvarf hún og kom ekki fram fyrr en nokkrum dögum síðar. Í dóminum segir að á þessum tíma hafi verið farið með hana í íbúð í Hafnarfirði. Þar hafi hún verið „prófuð", eins og segir í dóminum. Þar var hún látin veita tveimur mannanna munnmök. „Hún kvaðst hafa látið þetta yfir sig ganga þar sem hún hafi ekki átt neitt val," segir í dóminum. Hún hafi á þessari stundu gert sér grein fyrir að ætlast væri til þess að hún stundaði vændi hér á landi.

Ótrúverðugur framburður

Fram kemur í dóminum að framburður allra ákærðu þyki ótrúverðugur. Í tilviki Tadasar Jasnauskasar þykir framburðurinn afar ótrúverðugur og fjarstæðukenndur. Samkvæmt dóminum er hann annar mannanna sem „prófaði" stúlkuna. Fram kom í umfjöllun fréttastofu Stöðvar 2 af málinu að í bréfi sem hann skrifaði móður sinni, segði hann stúlkuna ljúga upp á sig. Fjölskipaður héraðsdómur Reykjaness er á öðru máli.










Tengdar fréttir

Litháar sakfelldir í mansalsmáli

Fimm Litháar voru í héraðsdómi Reykjaness nú klukkan þrjú dæmdir sekir af ákæru um mansal. Þeir voru ákærðir fyrir að hafa ætlað að selja í vændi nítján ára stúlku sem hingað kom frá litháen. Upp komst um málið þegar stúlkan trylltist í flugvél á leið hingað til lands. Hún hefur farið huldu höfði undanfarnar vikur.

Litháar fengu fimm ára dóm

Litháarnir sem sakfelldir voru í mansalsmálinu svonefnda voru dæmdir í fimm ára fangelsi hver. Dómur í málinu var kveðinn upp í lokuðu þinghaldi í héraðsdómi Reykjaness klukkan þrjú.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×