Innlent

Hjaltalín verðlaunuð fyrir poppplötu ársins 2009

Hjaltalín með Sigríði Thorlacius í broddi fylkingar geta sannarlega glaðst yfir uppskeru kvöldsins.
Hjaltalín með Sigríði Thorlacius í broddi fylkingar geta sannarlega glaðst yfir uppskeru kvöldsins.

Tónlistarmenn skiptu bróðurlega á milli sín Íslensku tónlistarverðlaununum 2009 sem veitt voru við hátíðlega athöfn í Íslensku óperunni í kvöld.

Hjaltalín hlaut verðlaun fyrir bestu poppplötu ársins, Terminal, og sveitin Feldberg þótti eiga besta lagið, Dreamin´. Enn fremur var Sigriður Thorlacius, söngkona Hjaltalín, valin rödd ársins og Davíð Þór Jónsson var valinn tónlistarflytjandi ársins fyrir fjölþreifni til hljóðfæra. Þá fékk Daníel Bjarnason tvenn verðlaun á hátíðinni, fyrir tónverk ársins, Bow to string, og sem höfundur ársins fyrir tónverkin á plötunni Processions.

Þá fékk Jón Nordal, tónskáld og fyrrverandi skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, heiðursverðlaun fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar. Sagði hann í þakkarræðu sinni að þetta væri sólskinsdagur fyrir gamlan mann sem unnið hefði í músíkbransanum í 70 ár.

Sveitin ADHD hlaut verðlaun fyrir bestu djassplötu ársins 2009 og píanókonsertar Haydns í flutningi Eddu Erlendsdóttur og Sinfóníuhljómsveitar Íslands var valin besta platan í flokki sígildrar og samtímatónlistar.

Hljómsveitin Dikta var svo valin vinsælasti flytjandinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×