Viðskipti innlent

Deutche bank gæti kært ríkið

Ríkið gæti átt yfir höfði sér málsókn frá Deutsche bank nái hugmyndir félagsmálaráðherra um afskriftir á bílalánum fram að ganga. Þýski bankinn er stærsti lánveitandi Lýsingar, sem færi í þrot. Stjórnvöld eru meðvituð um þessa hættu en telja sig geta komið í veg fyrir málsókn.

Félagsmálaráðherra hyggst leggja fram nýtt frumvarp í næstu viku þar sem tekið er á vanda þeirra sem glíma við himinhá bílalán. Landsmenn skulda nærri 160 milljarða króna í bílalán og eru þeir verst staddir sem tóku slík lán í erlendri mynt.

Búast má við að svokölluð 110% leið verði farin, sambærileg þeirri sem bankarnir hafa boðið fólki í yfirveðsettum fasteignum.

Það þýðir að þeir sem skulda 6 milljónir vegna bíls sem er að markaðsvirði 3 milljónir fá afskrifað allt umfram 3,3 milljónir króna - í þessu tilfelli 2,7 milljónir.

Uppnám ríkir í herbúðum fjármögnunar- og eignaleigufyrirtækja vegna væntanlegra aðgerða félagsmálaráðherra. Málið er á viðkvæmu stigi en menn þaðan sem fréttastofa hefur rætt við í dag telja tillögur ráðherra ekki hugsaðar til enda.

Nái frumvarpið fram yrði það líklega náðarhöggið fyrir flest þeirra og talið er fullvíst að Lýsing fari í þrot. Verði Lýsing gjaldþrota telja heimildamenn fréttastofu að ríkið eigi yfir höfði sér málsókn frá Deutche Bank, stærsta lánveitanda Lýsingar, sem yrði fyrir miklu tjóni.

Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, vill ekki tjá sig um málið að svo stöddu en unnið er að því hörðum höndum í ráðuneyti hans um helgina. Heimildir fréttastofu herma að stjórnvöld séu meðvituð um hættuna á lögsókn þýska bankans. Allt kapp sé lagt á að frumvarpið verði þannig úr garði gert að hvorki Deutche Bank, né aðrir sem gætu farið í mál - eigi erindi sem erfiði.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×