Innlent

Mottuvefurinn hrundi vegna álags

Af vefsíðunni. Karlmenn eru hvattir til þess að safna yfirvaraskeggi í marsmánuði til að sýna samstöðu og safna jafnfram áheitum til styrktar baráttunni gegn krabbameini með því að skrá sig til þátttöku í yfirvaraskeggskeppninni.
Af vefsíðunni. Karlmenn eru hvattir til þess að safna yfirvaraskeggi í marsmánuði til að sýna samstöðu og safna jafnfram áheitum til styrktar baráttunni gegn krabbameini með því að skrá sig til þátttöku í yfirvaraskeggskeppninni.

Fyrir helgi hrundi vefurinn karlmennogkrabbamein.is vegna gríðarlegs álags og þurfti að flytja hann á nýjan vefþjón sem hannaður er fyrir stærri vefi. Ástæðan var einfaldlega þær miklu vinsældir sem átakið nýtur en það sem af er mánaðar hefur vefurinn fengið yfir milljón flettingar.

„Aðsóknin hefur verið hreint ótrúleg og í síðustu viku komu yfir 64.000 manns inn á síðuna. Frá upphafi hefur síðunni verið flett nálægt milljón sinnum en um 2000 einstaklingar og 384 lið hafa skráð sig á síðuna og hlaðið inn fjölda skemmtilegra mynda," segir Gústaf Gústafsson markaðs- og fjáröflunarstjóri Krabbameinsfélags Íslands í tilkynningu og bætir við að undirtektir við átakinu með eindæmum. „Það er mikill og skemmtilegur keppnisandi á mottuvefnum eins og merkja má af þeim 11,5 milljónum króna sem hafa þegar safnast í áheitum."

Tíundi mest sótti vefur landsins

Það er TM Software sem hefur átt veg og vanda að smíði vefjarins. „Þetta hefur verið skemmtilegt verkefni en það átti enginn von á þessum gríðarlegu vinsældum," segir Brynjar Kristjánsson, verkefnastjóri hjá TM Software, í tilkynningunni.

„Vefurinn var upphaflega hýstur á vefþjóni sem hentar betur smærri vefjum, eins og gert var ráð fyrir að þessi yrði, en hann brást þegar þessu mikla magni mynda var hlaðið inn. Við höfum nú komið vefnum fyrir á stærri vefþjón sem nær að anna þessu mikla álagi og vonumst til að vinsældir síðunnar haldi áfram að vaxa,"segir Brynjar og nefnir sem dæmi að í síðustu viku einni saman hafi verið yfir hálf milljón flettinga á vefnum karlmennogkrabbamein.is.

„Ef miðað er við samræmda vefmælingu Modernus þá myndi vefurinn nú skila sér í 10. sæti hvað vinsældir varðar og það verður að teljast nokkuð gott fyrir vef af þessu tagi," segir Brynjar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×