Innlent

Frestaði ákvörðun um Magma

Nefnd um erlendar fjárfestingar frestaði á fundi sínum í dag, ákvörðun um hvort dótturfélagi kanadíska orkufyrirtækisins Magma Energy, væri heimilt að eiga hlut í HS orku.

Búist var við því að nefndin tæki í dag ákvörðun um hvort það standist lög að dótturfélag Kanadíska Orkufyrirtækisins Magma Energy, ætti hlut í HS orku, orkufyrirtæki Reyknesinga. Eftir hátt í þriggja klukkustunda fund, var hins vegar ákveðið að fresta ákvörðun til mánudags. Unnur Kristjánsdóttir, formaður nefndarinnar og fulltrúi Samfylkingarinnar í henni, hefur ekkert viljað tjá sig um málið.

Samkvæmt lögum um takmarkanir á erlendri fjárfestingu, geta einungis íslenskir aðilar eða aðilar af evrópska efnahagsvæðinu átt í orkufyrirtækjum.

Nefndin hefur fjallað um málið mánuðum saman og látið vinna fyrir ítarleg lögfræðiálit um málið. Fréttastofan greindi frá því fyrir allnokkru, að í áliti frá lagastofnun væri ekki skorið úr um málið. Rök væru fyrir því að heimila fjárfestinguna og einnig rök á móti.

Magma Energy Sweden á nú tæplega fjörutíu og eins prósents hlut í HS orku. Sænska félagið var stofnað sérstaklega til að fjárfesta hérlendis.En geysir green energy á næstum allt hitt.

Eftir því sem næst verður komist mun nefndin fallast á að kaup Magma á hlutum í HS orku standist íslensk lög. Þó sé ekki útilokað að nefndin komist að annarri niðurstöðu, leiði umræður í nefndinni til þess.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×