Viðskipti innlent

Skuggastjórnendur ekki sóttir til saka

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Rannsóknir sérstaks saksóknara hafa leitt í ljós að hér á Íslandi var lítil sem engin fjarlægð mynduð við eigendur hlutafélaga, ólíkt því sem tíðkaðist erlendis. Hér á landi voru eigendur miklu stærri þátttakendur í stjórnun bankanna. Þeir munu að öllum líkindum sleppa, þar sem refsiábyrgðin var hjá stjórn og forstjóra.

Engin ákvæði eru til í lögum sem taka á hugsanlegri refsiábyrgð skuggastjórnenda bankanna. Hugtakið skuggastjórnandi hefur verið notað sem lýsing því þegar stærsti hluthafi í hlutafélagi, eða fulltrúi hans, hefur áhrif á eða í reynd segir stjórnanda hvernig ákvarðanataka eigi að fara fram í viðkomandi hlutafélagi. Annað gildir um hugsanlega skaðabótaábyrgð.

Sennilega hefur þetta aldrei birst skýrar fyrir opnum tjöldum en þegar eigendur stórra banka funduðu með ráðamönnum í aðdraganda bankahrunsins. Komið hefur fram að Björgólfur Thor Björgólfsson réð ferðinni í ráðherrabústaðnum helgina fyrir setningu neyðarlaganna. Lýsing á þessu hefur birst m.a í bókum um bankahrunið. Þessa helgi var Björgólfur sjálfur mjög sýnilegur á fundum í stjórnarráðinu og var myndaður með bankastjórunum, Halldóri J. Kristjánssyni og Sigurjóni Þ. Árnasyni, á leiðinni á fund þar helgina fyrir setningu neyðarlaganna.

Engin fjarlægð

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa rannsóknir sérstaks saksóknara leitt í ljós að lítil sem engin fjarlægð virðist hafa verið milli stjórnenda hlutafélaga og eigendanna, í mörgum þeirra félaga sem hafa verið til rannsóknar hjá embættinu. Taka skal þó skýrt fram að hér er ekki verið að vísa sérstaklega til Björgólfs Thors, enda var það aðeins nefnt til skýringar hér framar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu birtist þetta skýrlega þegar skoðuð eru samskipti starfsmanna Milestone-samstæðunnar við sænska tryggingafélagið Moderna. Svo virðist sem stjórnendur þess hafi verið mjög sjálfstæðir í sínum störfum en engir fjármunir virðast hafa runnið frá Svíþjóð til Íslands að undanskildum arðgreiðslum. Stjórnendur Moderna munu hafa litið svo á að eigendur gætu greitt sér arð en hefðu ekki heimildir til að skipta sér af daglegum rekstri. Ólíkt því sem gilti um Sjóvá, sem var í eigu Milestone, en þar virðist forstjóranum hafa verið sagt hvað hann ætti að gera hverju sinni.

Engin ákvæði eru til í lögum sem gera eigendur hlutafélaga ábyrga fyrir refsiverðri háttsemi vegna ákvarðana sem voru teknar af forstjórum eða stjórn, þótt þau hafi í reynd verið að fylgja fyrirmælum. Með öðrum orðum má segja að eigendurnir sleppi vegna ákvarðana sem teknar voru af þeim í reynd, þar sem refsiábyrgð vegna þessara ákvarðana liggur annars staðar, eða hjá forstjóra og stjórn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×