Enski boltinn

Mun Giggs leysa Ramsey af?

Elvar Geir Magnússon skrifar
Ryan Giggs er fyrrum fyrirliði Wales.
Ryan Giggs er fyrrum fyrirliði Wales.

Ryan Giggs segist vera tilbúinn að skoða þann möguleika að spila aftur fyrir landslið Wales. Giggs er orðinn 36 ára og hafði lagt landsliðsskóna á hilluna 2007.

„Þetta er eitthvað sem ég þyrfti að ræða við John Toshack (þjálfara Wales) og Sir Alex Ferguson (stjóra Manchester United)," segir Giggs sem vill ekkert útiloka.

Giggs hefur oft dásamað Aaron Ramsey, leikmann Arsenal, og talað um hann sem framtíðarfyrirliða Wales. Ramsey varð fyrir skelfilegum meiðslum fyrir skömmu og verður frá í langan tíma.

Ljóst er að Ramsey getur ekki spilað fyrstu þrjá landsleiki Wales í undankeppni fyrir Evrópumótið 2012. Giggs er víst opinn fyrir því að fylla hans skarð í leikjunum til að hjálpa þjóð sinni í keppninni.

Ferguson hló þegar hann heyrði af ummælum Giggs. „Þið hljótið að vera að grínast? Ég sé þetta ekki gerast," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×