Innlent

Stór sprunga hefur myndast við útsýnissvæðin

MYND/Egill Aðalsteinsson

Fyrir þá sem hyggja á ferð á Fimmvörðuháls þá er rétt að hafa í huga að í nótt og dag hafa orðið nokkrar breytingar á svæðinu við eldstöðina. Að sögn Almannavarna hefur hraunið breytt úr sér á stærra svæði, þar sem útsýnissvæðin eru, og hefur það brætt mikið af snjó og ís.

„Vatnið hefur runnið til norð-austurs og skorið sprungu í ísinn á rúmlega 600 m kafla. Þessi sprunga er hættulega allri umferð á svæðinu og þeir sem fara þarna um eru hvattir til að sýna aðgát og leita til viðbragðsaðila (lögreglu eða björgunarsveita) á staðnum ef það vantar frekari upplýsingar," segir í tilkynningu.

Almannavarnir minna þá þá sem ætla í gönguferð um svæðið, hvort sem farið er frá Þórsmörk eða Skógum, að vera vel og rétt undirbúna. „Ferðalagið til og frá Skógum er 10-12 klst. í misjöfnu veðri. Á hverjum degi hefur þurft að koma fjölda fólks til aðstoðar á gönguleiðinni sem ekki treysti sér lengra eða var orðið örmagna."

Þá segir að gönguleiðin frá Þórsmörk og uppá Morinsheiði sé ekki við allra hæfi en víða þarf að fara um einstigi og brattar brekkur. „Nokkuð hefur verið um það að fólk hafi slasast á þeirri leið, sumir illa. Allar aðstæður til björgunar eru mjög erfiðar á þessu svæði og hefur þurft að leita aðstoðar þyrlu í nokkrum tilvikum til að koma viðkomandi til bjargar."

Að lokum er ítrekað mikilvægi þess að fólk fari eftir fyrirmælum lögreglu og björgunarsveita á svæðinu og taki tillit til þess að þeir eru þarna til að tryggja öryggi fólks.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×