Erlent

Segir þyrluárás í Írak réttlætanlega

Óli Tynes skrifar
Apache árásarþyrla.
Apache árásarþyrla.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið vill sem minnst segja um þyrluárásina á þessu stigi.

Í skriflegri yfirlýsingu segir að ráðuneytið vilji ekki staðfesta að myndbandið sé ófalsað, en að líkindum sé þarna um að ræða atvik sem var rannsakað árið 2007.

Í yfirlýsingunni segir að ráðuneytinu sé kunnugt um að sjónvarpsstöðvar hafi birt myndir af skothríð frá bandarískum þyrlum.

Myndirnar birtust fyrst á Wikileaks. Verið sé að finna uppruna myndanna og hvar og hvenær þær hafi verið teknar.

Reuters fréttastofan reyndi á sínum tíma að fá upptökuna á grundvelli upplýsingalaga en var synjað.

Háttsettur bandarískur herforingi í varnarmálaráðuneytinu sagði í samtali við Fox fréttastöðina að rannsókn á atvikinu á sínum tíma hafi leitt í ljós að hún hafi verið réttlætanleg.

Mennirnir sem skotið hafi verið á, að frátöldum blaðamönnum Reuters hafi tekið þátt í fjandsamlegum aðgerðum gegn bandarískum og íröskum hermönnum. Þeir hafi verið vopnaðir hríðskotarifflum og eldflaugabyssum.

Herforinginn segir að skýrt hafi verið frá þessu atviki opinberlega á sínum tíma, þar á meðal þeim mistökum að blaðamennirnir hafi verið vegnir.

 

 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×