Innlent

Geir vildi að Davíð færi fyrir neyðarstjórn

Geir vildi að Davíð færi fyrir sérstakri neyðarstjórn. Því hafnaði Össur Skarphéðinsson.
Geir vildi að Davíð færi fyrir sérstakri neyðarstjórn. Því hafnaði Össur Skarphéðinsson. Mynd/Anton Brink
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, vildi að Davíð Oddsson færi fyrir sérstakri neyðarstjórn vegna þeirra aðgerða sem grípa þyrfti til í október 2008. Þessu hafnaði Össur Skarphéðinsson og þá bað Geir Össur um að gera sér þetta ekki.

Geir lýsti tillögu sinni við skýrslutöku hjá Rannsóknarnefndinni með eftirfarandi orðum: „Já, það er þarna síðdegi eða á sunnudagskvöldi. Það var reyndar hugsað þannig af minni hálfu að þeir þrír aðilar sem helst kæmu að þessu máli, Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið, fjármálaráðuneytið, mundu skipa eins konar yfirstjórn vegna þessara nauðsynlegu aðgerða sem þyrfti að grípa til og þá fannst mér eðlilegt að sá maður sem hefði mest „senioritet" af þessum þremur mönnum sem þarna var verið að tala um, sem sagt formaður bankastjórnarinnar, formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, ráðuneytisstjóri að sá sem hefði mest „senioritet" yrði formaður [Davíð Oddsson]. Þá kom á daginn, og það stemmir náttúrulega við það sem hafði komið fram á ríkisstjórnarfundinum á föstudeginum, og reyndar kom mér á óvart hversu mikil harka var í því, að iðnaðarráðherrann sagði mér að það kæmi ekki til greina."



Geir bað Össur um að gera sér þetta ekki


Við skýrslutöku hjá nefndinni sagðist Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, hafa viljað að Jón Sigurðsson, þáverandi stjórnarformaður FME, væri hluti af teyminu. Og við biðjum svo um fundarhlé, af því að þarna er Davíð á fundinum, Davíð og Ingimundur voru þarna, og við förum fram Samfylkingarráðherrarnir og segjum að það munum við aldrei samþykkja að Davíð verði formaður hópsins og Össur fer og segir Geir það og hann, honum brá alveg rosalega, bara var mjög brugðið yfir því og held ég að hann hafi sagt, bað hann að gera sér þetta ekki.

Björgvin sagði einnig: „Og þá endar þetta á því að fyrst að Davíð var ekki formaður þá var þessi stjórn aldrei skipuð og þá var bara ákveðið að ráðherrarnir sjálfir væru í þessu, þannig að þetta var [...] það síðasta sem við sáum af Davíð, hann bara yfirgaf bústaðinn og í rauninni kom ekkert mikið meira nálægt þessu ferli [...]."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×