Innlent

Útlendingar kvíða Kötlugosi

Óli Tynes skrifar

Öngþveiti ríkir í samgöngum í Evrópu. Flugmálayfirvöld gera ekki ráð fyrir að flug komist í eðlilegt horf fyrr en eftir helgina í fyrsta lagi. Menn eru þegar farnir að kvíða fyrir Kötlugosi.

Ferðaáætlanir milljóna manna um allan heim eru enn í uppnámi vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Þúsundir flugvéla bíða á flugvöllum og ástandið versnar auðvitað með hverjum deginum sem líður.

Gosið er því enn með fyrstu fréttum í fjölmiðlum.

Sumir flugvellir eru mannlausir aðrir troðfullir af fólki. Mikill fjöldi manna á í engin hús að venda þar sem hótel um alla Evrópu eru yfirfull.

Flugmálayfirvöld fylgjast náið með ferli öskunnar og reyna að skjóta inn flugferðum þegar og þar sem færi gefst. Það er þó eins og dropi í hafið.

Aska er farin að falla til jarðar í Noregi og í Danmörku telja fjónbúar sig finna brennisteinsfnyk alla leið frá Íslandi.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur ráðlagt Evrópubúum að halda sig innan dyra þegar og ef askan byrjar að falla.

Erlendir fjölmiðlar gera lítið til að hugga sitt fólk. Því er sagt að á Íslandi sé til eldfjall sem heiti Katla. Og ef það haldi að ástandið sé slæmt núna skuli það bara bíða þartil Katlar fer af stað.

Það er svo kaldhæðni örlaganna að flugvellirnir bæði í Reykjavík og Keflavík eru opnir. Tafir sem hafa orðið á flugi til og frá Íslandi eru vegna flugvalla sem eru opnir erlendis.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×