Innlent

„Ég hef ekki séð það svartara“

Frá hlaðinu í Hlíð undir Eyjafjöllum klukkan þrjú í dag. "Ljósin á bænum sjást þarna en það var á tímabili þar sem ég sá þau ekki," segir Sigurgeir. Mynd/Sigurgeir L Ingólfsson
Frá hlaðinu í Hlíð undir Eyjafjöllum klukkan þrjú í dag. "Ljósin á bænum sjást þarna en það var á tímabili þar sem ég sá þau ekki," segir Sigurgeir. Mynd/Sigurgeir L Ingólfsson
„Það er stafalogn og óloft sem hefur leitað inn í húsin til okkar," segir Sigurgeir L. Ingólfsson á bænum Hlíð undir Eyjafjöllum. Þar hefur líkt og víða annars staðar verið mikið öskufall vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. „Ég hef ekki séð það svartara. Hér er mun meira myrkur en nokkurn tíma verður á venjulegri vetrarnóttu," segir Sigurgeir.

Hlíð er mitt á milli Steina og Þorvaldeyrar. „Ég er vestan við Þorvaldseyri og austan við Steina. Bærinn stendur ofar í hlíðinni."

Sigurgeir segir að eiginkona hans og sonur hafi ekki brugðist við öskufallinu með því að þétta rifur og annað slíkt. Askan sé mjög fíngerð. „Við getum ekkert gert. Askan smýgur alls staðar inn og það væri alveg sama hvort að við myndum þétta og frauða því þá værum við um leið að loka fyrir súrefni. Það gefur auga leið."

Skrýtnari en venjulega



Sigurgeir segir að þau finni vel fyrir öskunni. „Við erum skrýtnari en venjulega," segir hann og hlær en bætir við: „Við finnum fyrir sviða í augum þó að við séum innan dyra og þá höfum við aðeins fundið fyrir höfuðverk." Nú sé logn og það sé ekki gott.

„Við mældum þetta áðan og það er einn og hálfur sentímetri jafnfallin aska," segir Sigurgeir. Sigurgeir L. Ingólfsson
Sigurgeir tók myndirnar sem fylgja með þessari frétt klukkan þrjú í dag.

„Ég tók þessar myndir um leið og við fórum að athuga með skepnur. Við höfum farið fjórum til fimm sinnum út til að kanna vatn og ástandið á þeim," segir Sigurgeir sem er með nautgripi, kindur og nokkur hross.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×