Innlent

Segir börn upplifa ógn í nágrenni við mótmæli

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stefán Eiríksson segir að börn upplifi ógn í nálægð við mótmæli. Mynd/ Vilhelm.
Stefán Eiríksson segir að börn upplifi ógn í nálægð við mótmæli. Mynd/ Vilhelm.
„Við lítum þetta mjög alvarlegum augum. Það er ekkert launungarmál," segir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, um mótmæli sem efnt hefur verið til fyrir framan heimili þingmannanna Steinunnar V. Óskarsdóttur og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.

„Ástæðan er einföld og hún er sú að friðhelgi heimilanna er varin í stjórnarskrá og Mannréttindasáttmálanum. Og þegar menn beina mótmælaaðgerðum sínum að heimilum tiltekinna einstaklinga að þá eru menn að rjúfa friðhelgi heimila," segir Stefán. Hann bendir á að bæði sé verið að rjúfa friðhelgi heimila þeirra sem mótmælin beinast gegn og þeirra heimila sem eru í nágrenninu.

„Við teljum því skýrt að það þurfi að bregðast við slíkum aðgeðrum. Við höfum verið að gera það og reynt að beita eins mildum og skynsömum aðgerðum og kostur er gegn þessum hópi mótmælenda," segir Stefán. Hann segist vonast til þess að fólk bregðist við þeim rökum sem lögreglan hafi fram að færa.

Stefán segir að ástæðan sé mjög einföld. „Það er nú ekki fólk sem verður fyrir þessum mótmælum sem hefur mestar áhyggjur af þessu heldur ekki síður nágrannar þeirra," segir Stefán. Hann segir að lögreglan hafi fengið þær upplýsingar frá fólki úr nágrenni við slík mótmæli að börn hafi upplifað þau mjög sterkt og upplifað mikla ógn af þeim. „Þannig að það er ljóst að þessar aðgerðir eru ekki bara brot á friðhelgi heimila þeirra sem mótmælin beinast gegn heldur líka gegn heimilum annarra sem eru í nágrenninu og telja sér ógnað með þessari háttsemi," segir Stefán.

Stefán bendir þó á að réttur fólks til að mótmæla sé líka mikilvægur og varinn í stjórnarskrá. „En þegar menn beita þeim réttindum með þeim hætti að þeir eru farnir að skerða réttindi og friðhelgi annarra að þá er það hlutverk lögreglu að koma í veg fyrir að menn beiti slíkum aðgerðum," segir Stefán.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×