Innlent

Tengsl við Kötlu verður að taka alvarlega

Haraldur Sigurðsson segir að taka verði alvarlega vísbendingar um tengsl Eyjafjallajökuls við Kötlu. Mynd/ Anton.
Haraldur Sigurðsson segir að taka verði alvarlega vísbendingar um tengsl Eyjafjallajökuls við Kötlu. Mynd/ Anton.

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur segir að taka verði mjög alvarlega vísbendingar um að gos í Eyjafjallajökli geti hleypt Kötlu af stað. Slík systragos hafi þó öll verið lítil. Ekkert dregur úr gosóróa en skýrar vísbendingar eru um að gosið sé breytast úr öskugosi í hraungos, sem Haraldur telur að geti staðið mánuðum saman.

Fyrstu dagana einkenndist gosið af gufusprengingum sem urðu þegar hraunkvikan bræddi jökulinn, en sprengingarnar tættu upp kvikuna og úr varð svört aska og öskubólstrar sem stigu hátt til himins.

Gosið telst lítið, á alþjóðlegum mælikvarða um stærð eldgosa, sem er rúmmál goskviku. Haraldur segir að Surtseyjargosið hafi verið einn rúmkílómetri af kviku, Lakagígar um fimmtán, eldgos í Indónesíu árið 1815 hafi verið um eitthundrað rúmkílómetrar. Þetta gos nú sé enn vel innan við einn rúmkílómetra.

"Það er því lítið gos. En lítið gos með mikil áhrif, segir Haraldur. Ástæðan er hversu víða askan hefur borist. Það sé óvenjulegt hversu fín askan sé, eins og hveiti, og þessvegna dreifist hún miklu lengra.

Haraldur segir að menn verði að vera viðbúnir því að Eyjafjallajökull geti ræst Kötlu.

"Málið er það alvarlegt. Við verðum að taka það með fullri alvöru að það geti verið möguleiki á því að Eyjafjallajökulskvikan geti skotist í Kötlukerfið neðanjarðar og hleypt einhverju af stað," segir Haraldur.

"En til allrar hamingju hafa öll þessi Kötlugos sem hafa fylgt Eyjafjallajökulsgosum verið lítil gos. Svo að það er jákvæða hliðin," bætir hann við.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×