Erlent

Palin vitnaði gegn tölvuþrjóti

Palin ræðir við fréttamenn fyrir utan dómsalinn í Knoxville í Tennessee. Mynd/AP
Palin ræðir við fréttamenn fyrir utan dómsalinn í Knoxville í Tennessee. Mynd/AP
Sarah Palin, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og ríkisstjóri í Alaska, bar í dag vitni gegn tölvuþrjóti sem braust inn í tölvupóst hennar í kosningabaráttunni fyrir tveimur árum. Tölvuþrjóturinn heitir David Kernell og 22 ára fyrrverandi nemi í Háskólanum í Tennessee en þar lagði hann stund á nám í hagfræði.

Lögfræðingur Kernell segir að um grikk hafi verið að ræða en ekki glæp.

Hann er ákærður fyrir að hafa brotist inn í tölvupóst Palin hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Yahoo og lesið pósta sem fóru á milli hennar og fjölskyldu hennar. Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að Kernell á yfir höfði sér allt að 50 ára fangelsi verði hann fundinn sekur í málinu.

Palin sagðist aðspurð í dag ekki geta lagt mat á það hvort að ákæran gegn Kernell væri ekki heldur yfirdrifin. Hún sagði þó að menn yrðu að taka afleiðingum gjörða sinna.

Palin var varaforsetaefni Repúblíkana í forsetakosningunum 2008. Hún lét af störfum sem ríkisstjóri Alaska í júlí á síðasta ári. Búist er við því að hún gefi kost á sér í forvali Repúblíkanaflokksins fyrir forsetakosningarnar eftir tvö ár.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×