Innlent

Ólafur Ragnar hélt ræðu um jarðhita á heimsþingi

Ólafur Ragnar Grímsson er staddur í Indónesíu.
Ólafur Ragnar Grímsson er staddur í Indónesíu.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flutti í morgun ræðu við setningu Heimsþings um jarðhita (World Geothermal Congress sem haldið er á Bali í Indónesíu en slík þing eru á fimm ára fresti samkvæmt tilkynningu frá forsetaembættinu.

Susilo Bambang Yudhoyono forseti Indónesíu flutti einnig ræðu við setninguna en áður höfðu forsetarnir átt árangursríkan fund um samvinnu Íslands og Indónesíu þar sem einkum var lögð áhersla á jarðhita og framtíðarmöguleika hans á heimsvísu sem og samvinnu á sviði sjávarútvegs. Alþjóðasamtök um jarðhita (International Geothermal Association) buðu forseta Íslands að sækja þingið og flytja ræðu við setninguna.

Þingið sækja um 2.500 sérfræðingar, vísindamenn, tæknifræðingar, verkfræðingar og forystumenn á sviði orkumála víða að úr veröldinni og í þeim hópi eru um 100 Íslendingar. Einnig sækja þingið hátt á annað hundrað sérfræðingar í jarðhita frá tugum þjóðlanda sem lokið hafa námi við Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Í tilkynningunni kemur fram að á fundi forseta Indónesíu og Íslands hafi verið rætt um hvernig íslensk tækniþekking getur gagnast við nýtingu hins gríðarmikla jarðhita sem finna má í Indónesíu.

Forseti Indónesíu vísaði til árangurs Íslendinga á sviði jarðhitaframkvæmda, rannsókna, menntunar og þjálfunar. Þá var vikið að verkefnum í Indónesíu sem voru á dagskrá fundar forsetans með þáverandi iðnaðarráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, þegar hann heimsótti Indónesíu fyrir þremur árum.

Forseti Indónesíu lýsti einnig miklum áhuga á því að auka samvinnu við Íslendinga á sviði sjávarútvegs og að námsmenn frá landi hans gætu sótt í auknum mæli Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Þá voru forsetarnir sammála um að mikilvægt væri að jarðhiti yrði á komandi árum öflugur þáttur í aukinni nýtingu hreinnar orku á veraldarvísu.

Fund forseta Íslands og Indónesíu sátu einnig utanríkisráðherra, viðskiptaráðherra og sjávarútvegsráðherra Indónesíu auk indónesískra embættismanna. Af Íslands hálfu sátu fundinn Guðni Jóhannesson orkumálastjóri, Ingvar Birgir Friðleifsson skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Benedikt Höskuldsson frá utanríkisráðuneytinu og Örnólfur Thorsson forsetaritari.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×