Innlent

Ríkið verndar þá fjársterku

Ríkisstjórn Íslands lýsti því yfir 6. október 2008 að innstæður í bönkum og sparisjóðum væru tryggðar að fullu en ekki einungis miðað við um það bil tveggja milljóna króna eign eins og skylt var.
Ríkisstjórn Íslands lýsti því yfir 6. október 2008 að innstæður í bönkum og sparisjóðum væru tryggðar að fullu en ekki einungis miðað við um það bil tveggja milljóna króna eign eins og skylt var.

Hefði ríkisstjórn Geirs H. Haarde miðað hámarksvernd innstæðna í bönkum og sparisjóðum við fimm milljónir króna hefði inneign 95 prósent einstaklinga og 90 prósent lögaðila verið tryggð að fullu.

Þetta hefði falið í sér 555 milljarða króna skuldbindingu. Full vernd allra innstæðna fól hins vegar í sér 2.318 milljarða króna skuldbindingu fyrir ríkið, miðað við upplýsingar sem fyrir lágu í maí 2008. Tveir þriðju hlutar af þeirri skuldbindingu fólust í því að vernda innstæður tveggja prósenta einstaklinga og sjö prósenta fyrirtækja sem áttu meira en 10 milljónir króna, eða samtals um 1.763 milljarða króna.

Þessar upplýsingar er að finna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Útreikningarnir voru lagðir fyrir fund samráðshóps þriggja ráðuneyta, Seðlabanka og Fjármálaeftirlits 9. maí árið 2008 og byggðust á stöðu innlána í september 2007. Samkvæmt tilskipun ESB var aðeins skylt að tryggja innstæður upp að 20.887 evrum, sem svaraði til um 1,7 milljóna króna í maí 2008. Ríkisstjórn Íslands tryggði innstæður að fullu með yfirlýsingu sem gefin var út 6. október 2008.

Í 17. kafla rannsóknarskýrslunnar eru tekin dæmi um vernd á innstæðum. Ef hámarksvernd hefði miðast við átta milljónir króna hefðu 97 prósent einstaklinga, sem voru eigendur 67 prósent af heildarinnstæðum, og 92 prósent fyrirtækja, sem voru eigendur 8 prósent af heildarinnstæðum, fallið þar undir.

Tíu milljóna króna vernd hefði náð yfir allar innstæður 98 prósent einstaklinga og 67 prósent af heildarfjárhæðinni. Um 93 prósent inneigna lögaðila hefði verið tryggð að fullu. Verndin hefði hins vegar náð yfir 8 prósent af heildarinnstæðum þeirra. Það hefði falið í sér 732 milljarða króna hámarksskuldbindingu; 467 milljarða til einstaklinga en 84,8 milljarða til lögaðila.

Ekki var veitt sérstök lagaheimild til þessarar skuldbindingar. Óljóst er hver kostnaður ríkisins af þessum ábyrgðum verður þar sem uppgjöri banka og sparisjóða er ólokið. -pg



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×