Innlent

Óforsvaranlegt að bankar skili hagnaði en fjölskyldur séu bornar út

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Framsóknarkonur segja það vera óforsvaranlegt að skuldir hafi verið keyptar úr gömlu bönkunum á 45% afslætti en sá afsláttur skili sér ekki til lántakenda. Samsett mynd/ Kristinn.
Framsóknarkonur segja það vera óforsvaranlegt að skuldir hafi verið keyptar úr gömlu bönkunum á 45% afslætti en sá afsláttur skili sér ekki til lántakenda. Samsett mynd/ Kristinn.
Framsóknarkonur telja að það sé óforsvaranlegt að nýju bankarnir skuli krefja almenning um fulla endurgreiðslu lána sem voru keypt af gömlu bönkunum með 45% afslætti. Þetta leiði meðal annars til þess að þeir skili hagnaði á sama tíma og fjölskyldur séu bornar út af heimilum sínum. Þetta kemur fram í ályktun sem Landssamband Framsóknarkvenna sendi frá sér í gær.

„Landssamband framsóknarkvenna lýsir yfir vanþóknun sinni á þeim gríðarlega háu afskriftum sem fram hafa farið í bönkunum á lánum ákveðinna fyrirtækja á sama tíma og harkalega er gengið nærri almenningi sem glímir við gríðarlegan skuldavanda. Skuldavanda sem er að miklu leyti tilkominn vegna glæfralegrar starfsemi bankanna," segir í ályktuninni.

Þar kemur jafnframt fram að framsóknarkonur telja það einnig vera mjög ámælisvert að sum þessara fyrirtækja hafa greitt sér himinháan arð á sama tíma og þau hafi safnað gríðarháum skuldum. Koma þurfi í veg fyrir að slíkt sé hægt með lagasetningu. Landssamband framsóknarkvenna ítrekar mikilvægi þess að allir fái sömu meðferð í bönkunum til þess að takast á við skuldavanda sinn hvort sem um stór, meðalstór, lítil fyrirtæki eða heimilin sé að ræða og ferlið sé opið og gagnsætt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×