Innlent

Flutt af Kleppi eftir áratugi

Kleppur. Á þeim rúmu hundrað árum sem liðin eru frá því að spítalinn var reistur hefur afstaða til geðheilbrigðismála breyst.   
fréttablaðið/vilhelm
Kleppur. Á þeim rúmu hundrað árum sem liðin eru frá því að spítalinn var reistur hefur afstaða til geðheilbrigðismála breyst. fréttablaðið/vilhelm

Deild 14 á Kleppi verður lokað á vordögum. Deildin er sérhæfð meðferðar- og endurhæfingargeðdeild fyrir fólk með langvinna geðsjúkdóma og alvarlega atferlistruflun. Tólf dvelja á deildinni og hafa sumir verið þar um áratuga bil.

Flestum hefur verið fundin ný búseta. Um helmingur hópsins er eldra fólk sem á rétt á vistunarmati og dvöl á hjúkrunarheimili. Hluti fær heimili á vegum Straumhvarfaverkefnisins svonefnda en óvíst er um úrræði fyrir fjóra. Þeir stríða við flókna blöndu af þroskaskerðingu, geðsjúkdómi og hegðunar­truflunum. Vonir standa til að framtíðar­búseta tveggja þeirra leysist á næstu vikum en staða hinna tveggja er erfiðari viðfangs og krefst flóknari úrlausna.

Páll Matthíasson, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans, segir langtímadvöl og jafnvel fasta búsetu á sjúkrahúsum hvorki samræmast nútímaheilbrigðisþjónustu né mannúðarsjónarmiðum. Tólf prósenta sparnaðarkrafa á tveimur árum hraði þó lokun deildarinnar. Beinn rekstrarkostnaður deildar 14 nemur 170 milljónum króna á ári.

„Það er ekki hlutverk geðsviðs Landspítalans að sinna búsetuúrræðum fatlaðs fólks,“ segir Páll og bendir á að þessir tólf vistmenn séu í raun þeir síðustu sem eftir eru af því gamla Kleppssamfélagi sem í eina tíð taldi hundruð manna. „Fólk sem er með geðsjúkdóm en á ekki von um bata á ekki að vera á sjúkrahúsi. Það á rétt á að vera búið heimili.“

Páll segir að yfirvofandi breytingum fylgi kvíði og óöryggi en þrátt fyrir það sé ómögulegt að halda því fram að fólkinu sé betur fyrirkomið á Kleppi.

Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, kveðst einlægur fylgismaður þeirrar stefnu að fólki séu búin heimili utan spítala en gagnrýnir að tilkynnt hafi verið um lokun deildarinnar áður en öllum voru fundin ný búseta.

Alls 27 starfsmönnum deildarinnar hefur verið sagt upp og taka uppsagnirnar gildi 1. maí. Páll Matthíasson segir markmið stjórnenda að allir fái ný störf innan Landspítalans og telur hann vonir um það góðar.

Deild 14 er til húsa á 1. hæð gamla Kleppsspítalans inni við Sund. Að sögn Páls er ástand húsnæðisins ágætt og verður önnur deild í verra húsnæði flutt þangað.

- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×