Innlent

Efast um að Íslendingum standi ógn af iðnnjósnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ögmundur Jónasson segist ekki sannfærður um að iðnnjósnir á Íslandi séu vandamál. Mynd/ Vilhelm.
Ögmundur Jónasson segist ekki sannfærður um að iðnnjósnir á Íslandi séu vandamál. Mynd/ Vilhelm.
„Ég á nú eftir að sannfærast um að þetta sé eitthvað verulegt vandamál til að takast á við," segir Ögmundur Jónasson, dóms- og mannréttindamálaráðherra, um fréttir þess efnis að Kínverjar stundi iðnaðarnjósnir á Íslandi.

Samkvæmt Wikileaksskjölunum sem birt voru um helgina telja Bandaríkjamenn að Kínverjar stundi iðnaðarnjósnir hér í líftækniiðnaði. Forsvarsmenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa óskað eftir þvi að Ríkislögreglustjóri rannsaki málið.

Það sem er nýtt í þessu er að menn telja að við búum yfir þekkingu sem hafði verðgildi í sjálfu sér og sé þess virði að njósna um og fá upplýsingar um," sagði Ögmundur í samtali við Reykjavík síðdegis í dag. Hann segir að þetta sé breyting frá fyrri tímum þegar þekkingin hafi verið öllum frjáls til afnota. Nú sé hún farin að ganga kaupum og sölu í ríkari mæli en áður var.

„Þetta er nýr heimur sem við erum að komast í kynni við. Stórþjóðir hafa átt við þetta vandamál að glíma lengi svona þegar þær hafa verið að pukrast með ýmis leyndarmál í framleiðslunni. Hvort sem það var uppskriftin að Kóka kóla eða kjarnorkubúnaði eða einhverju slíku, en þetta er nýtt fyrir okkur," segir Ögmundur.

Ögmundur segist sjálfur ekki vilja setja á fót neinar rannsóknarnefndir eða eftirlit fyrr en að honum sé ljóst hvort einhver hætta sé að ferðum vegna þessa njósna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×