Innlent

Hundrað króna gjald á mánuði

jakob frímann magnússon
jakob frímann magnússon
Einungis er greitt fyrir um fimm prósent þeirrar tónlistar sem notendur hlusta á og sækja á Netinu. Þetta segir Jakob Frímann Magnússon, varaformaður STEF.

Jakob segir vegið alvarlega að íslenskum tónlistariðnaði með ólöglegu niðurhali og bráðnauðsynlegt sé að gera eitthvað í málinu. STEF lagði fram hugmyndir fyrr í mánuðinum um að leggja gjald á nettengingar notenda og borga höfundaréttarhöfum fyrir tónlist sem er notuð ólöglega á Netinu.

„Það hefur aldrei verið meiri notkun á tónlist í heiminum heldur en nú með tilkomu Netsins. Það hefur haft það í för með sér að hljómplötubransinn er að hrynja innan frá og tekjur sem tónlistarmenn hafa af sköpun sinni eru að gufa upp,“ segir hann.

Fyrir tveimur árum hóf danska símafyrirækið TDC að reikna út ákveðið gjald á hvern netnotanda og borga fyrir þá til höfundaréttarhafa og útgefenda. Jakob segist ekki vita hvaða leið verði ákveðin hér á landi. Hann segir að einungis sé um lágt gjald að ræða, um 100 krónur á mánuði, sem myndu bætast ofan á netgjöldin.

„Hundrað krónur á mánuði samsvara einu símtali – og myndu veita notendum aðgang að einhvers konar banka tónlistar sem leiddi þá áfram inn í kauphallir tónlistarinnar þar sem fólk borgar fyrir niðurhal og þjónustu,“ segir Jakob Frímann.- sv



Fleiri fréttir

Sjá meira


×