Viðskipti innlent

Öllum hugmyndum tekið fagnandi

Katrín Jakobsdóttir. Mennta- og menningarmálaráðuneytið skoðar hugmyndir STEFs varðandi gjöld á nettengingar.
Katrín Jakobsdóttir. Mennta- og menningarmálaráðuneytið skoðar hugmyndir STEFs varðandi gjöld á nettengingar.

Verið er að skoða leiðir innan menntamálaráðuneytisins til þess að sporna við ólöglegu niðurhali á tónlist. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra segir að aukin gjöld á nettengingar séu ein þeirra leiða sem verið sé að athuga.

„Við erum að standa fyrir heildar­endurskoðun varðandi höfundarétt,“ segir Katrín. „Það er nauðsynlegt að finna leiðir til þess að neytendur taki löglega kosti fram yfir ólöglega. Vissulega eru kostir og gallar við allar hugmyndir en það verður að halda þessari umræðu áfram.“

Alex MacNeil, forstjóri tón­listar­síðunnar Gogo­yoko, skilur hugmyndirnar um gjöldin, en STEF lagði þær fram á fundi sem haldinn var í september. „Ég er mjög sammála því að tónlistarmenn eigi að fá greitt fyrir sölu og dreifingu á tónlist sinni á netinu.“

Gogoyoko borgar þeim lista­mönnum sem eru með tónlist á síðunni tvö sent í hvert sinn sem lögum þeirra er streymt. Fjörutíu prósent af auglýsingatekjum fyrirtækisins renna óskertar til tónlistar­mannanna og voru í fyrsta sinn greiddar út nú 1. október. „Það er nauðsynlegt að hugsa öðruvísi og leiðirnar fyrir listamenn til að fá greitt fyrir tónlistina sína á netinu þurfa að vera fjölbreyttar,“ segir hann.

Gylfi Blöndal, fulltrúi listamanna hjá Gogoyoko, segir að nauðsynlegt sé að gleyma því ekki að ólöglegt niðurhal sé lögbrot og nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða. „Maður fagnar öllum hugmyndum að lausnum sem koma fram, þær hafa ekki verið margar,“ segir Gylfi. - sv






Fleiri fréttir

Sjá meira


×