Viðskipti innlent

Nálgumst ástandið í Miðbaugs-Gíneu

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.
Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. Mynd/GVA
„Ég undrast mjög þetta tal ríkisstjórnarinnar um að þjóðnýta. Ég skil ekki hvað vakir fyrir þeim," segir Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Samtökin hafa gagnrýnt afskipti stjórnvalda af kaupum Magma Energy af HS Orku harðlega, og fullyrt að fyrirtækið hafi unnið algerlega samkvæmt íslenskum lögum.

Rætt er við Vilmund í helgarblaði Fréttablaðsins m.a. um kjarasamninga, fiskveiðistjórnunarkerfið og kaup Magma Energy á hlut í HS Orku.

„Við erum vestrænt ríki á 21. öldinni, og það er verið að tala um þjóðnýtingu á einkafyrirtæki sem hefur farið fullkomlega að lögum og á ekki auðlindina. Ég lýsi yfir mikilli vanþóknun á svona málflutningi, og maður veltir því fyrir sér hvort við séum farin að nálgast ástandið í Venesúela eða Miðbaugs-Gíneu," segir Vilmundur.

Að hans mati getur ríkisstjórnin ekki talað svona á sama tíma og reynt er að reyna að fá fjárfesta til landsins. „Mér er tjáð að í dag sé farið að tala um að erlendar bankastofnanir krefjist aukaálags vegna óstöðugs pólitísks ástands hér á landi. Þetta hefur komið fram í viðtölum HS Orku við bankastofnanir. Það er eðlilegt að bankar fari að hugsa sinn gang ef það vofir yfir þjóðnýting á fyrirtækjum."

Spurður hvort hann þekki einhver tiltekin dæmi um að erlendur aðili hafi hætt við að fjárfesta hér á landi vegna þessa máls segist Vilmundur ekki geta nefnt eitt ákveðið dæmi. „Við vitum af hinum og þessum sögum um að menn hafi sagt hingað og ekki lengra. En ég get ekki nefnt einhver ákveðin dæmi um það."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×